Björgunarbúningar og öryggisfræðsla sjómanna

Þriðjudaginn 16. júní 2009, kl. 16:46:51 (1455)


137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

björgunarbúningar og öryggisfræðsla sjómanna.

84. mál
[16:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra skýr og góð svör. Ég held að ég hafi heyrt það rétt að hæstv. ráðherra hyggist breyta reglum um björgunarbúninga á bátum undir 12 metrum. Ég fagna því og mun styðja hann í að leggja fram frumvarp sem kveður á um lögskráningu sjómanna þannig að hægt sé að fylgjast með því hvort menn hafa lokið Slysavarnaskóla sjómanna, öryggisgæslu þar.

Hæstv. samgönguráðherra las upp úr fundargerð siglingaráðs, sem er reyndar ráðgefandi fyrir hæstv. samgönguráðherra hvað varðar öryggismál sjómanna, og reifaði ýmislegt sem kom fram þar sem menn voru að benda á að þeir teldu ekki æskilegt að hafa björgunarbúninga í skipum undir 12 metrum. Ég sagði á þeim fundi, og ég ætla að ítreka það hér, að ef bátar hafa ekki pláss til að hafa björgunarbúninga um borð sé spurning hvort þeir eigi yfir höfuð að vera á sjó. Ekki er um það deilt að þessir búningar hafa bjargað mannslífum og það er gríðarlega mikilvægt að menn gefi ekki eftir í því. Síðasta ár var fyrsta ár í sögu lýðveldisins sem enginn sjómaður lést við skyldustörf. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við sláum ekkert af í sambandi við öryggismál sjómanna.

Ég vil að lokum þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og góð viðbrögð við þessum fyrirspurnum. Ég heiti því að styðja hæstv. ráðherra í að ráða þar bót á málum.