Icesave-samningar og ríkisábyrgð

Fimmtudaginn 18. júní 2009, kl. 14:10:24 (1534)


137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-samningar og ríkisábyrgð.

[14:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óvíst hvort það verður utandagskrárumræða um Icesave-samningana á eftir eins og hefur komið fram auk þess sem hæstv. forsætisráðherra verður ekki til svara þá heldur hæstv. fjármálaráðherra.

Ég vil líka taka fram að spurning mín snýst um hvað verið er að setja að veði. Hér spurði hv. þm. Eygló Harðardóttir um forgangskröfur. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spurði um leyndina á eignasöfnunum. Af hverju er þeim ekki aflétt ef þetta á allt að vera uppi á borðum? Eigum við að treysta erlendum sérfræðingum eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hérna? Af hverju fáum við ekki bara að sjá safnið? Eins og við viljum fá að sjá samninginn. Og hv. þm. Pétur Blöndal spurði um áhættugreiningu og lánshæfismat.

Ég ber aftur fram spurninguna: Hvað erum við að setja að veði? Hvaða eignir íslensku þjóðarinnar erum við að setja að veði? Er það gjaldeyrisvaraforðinn? Er (Forseti hringir.) það blóðið í íslensku hagkerfi?