Upplýsingar um Icesave-samningana

Fimmtudaginn 18. júní 2009, kl. 18:57:03 (1604)


137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég get nú ekki annað en tekið undir með hv. þm. Þór Saari. Ég skil ekki hvernig þingmenn sem hafa lesið þennan samning hafa geð í sér til að koma hér og tala fyrir honum og reyna að halda því fram að það sé ásættanlegt að skuldbinda þjóðina með þeim hætti sem þar er lýst.

Hæstv. utanríkis- og fjármálaráðherrar tala mikið um hvað ég sé neikvæður, svartsýnn. Ég má væntanlega ekki tala markaðinn niður. (Gripið fram í.) Ég má ekki vera svona leiðinlegur. Ég verð að taka þátt í jákvæðninni og bjartsýninni. Hvar hefur maður heyrt þetta áður, hæstv. ráðherra? Er ekki kominn tími til að við hættum að blekkja þjóðina og segjum henni hlutina eins og þeir eru raunverulega þannig að menn séu tilbúnir til að takast á við þá? (Gripið fram í.) Vegna þess að þá eru menn tilbúnir að takast á við þá. Þá verðum við líka að þora að draga upp þá mynd sem er raunveruleg.

Ég er svolítið hræddur um það að ríkisstjórnin skilji einfaldlega ekki þann gjörning sem hún talar fyrir hér. Það er eina skýringin sem ég get fundið fyrir því að hún haldi nú áfram að tala fyrir þessum samningi. Það er einfaldlega tekið fram í samningnum, það er ekki hægt að misskilja það, að hægt sé að ganga að eignum íslenska ríkisins hvar sem er ef stjórnvöld þessara ríkja telja að vanefndir hafi orðið á samningnum.

Hvers vegna skilur hæstv. ríkisstjórn það ekki? Hugsanlega vegna þess að hún virðist ekkert hafa leitað ráðgjafar í þessu máli. Hæstv. utanríkisráðherra lagði nú verulega lykkju á leið sína til þess að reyna að sýna fram á að mér hefði snúist hugur í þessu máli með því að fara að fjalla um einhverja háskólaprófessora sem hann taldi að einhvern tímann hefðu komið á minn fund.

Ég kannast nú reyndar ekki við að Gylfi Zoëga hafi verið efnahagsráðgjafi Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Það er rétt, ég hitti Jón Daníelsson. En ég bendi hæstv. ráðherra á að fletta því upp í gagnasafni fréttamiðlanna hvað Jón Daníelsson hefur sagt um Icesave. Ég geri reyndar ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi ruglast, að hann hafi verið að horfa á fréttir í Sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum og séð Jón Daníelsson í viðtali þar sem hann var að tala um Icesave. Jón Daníelsson sagði í þessu viðtali að það væri ekki valkostur fyrir ríki að standa ekki við lagalegar skuldbindingar sínar, að lenda í því sem kallað er þjóðargjaldþrot. (Gripið fram í.)

Það er einmitt heila málið í þessu öllu saman. Í Icesave-málinu höfum við lagastöðu. Við höfum rétt, við getum farið og varist núna. En ef við gerum það ekki núna er afleiðingin sú að við lendum í þeirri stöðu sem Jón Daníelsson sagði, að engin þjóð gæti leyft sér að lenda í, þjóðargjaldþroti. Við skulum því líta til ráðgjafa og huga að því sem þeir hafa um þetta mál að segja.

Ég held að það sé reyndar alveg rétt sem hæstv. utanríkisráðherra nefnir, að menn hafi verið sjálfum sér samkvæmir. Menn eins og hæstv. félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, hann hefur svo sannarlega verið sjálfum sér samkvæmur í þessu máli. Hér kom hæstv. ráðherra á sínum tíma og talaði nánast eins og hann hefði verið ráðinn til starfans af Evrópusambandinu. Það vottaði ekki fyrir áhuga hjá honum á því að kynna sér lagalega stöðu Íslands, hvað þá að láta reyna á hana. Nei. Hæstv. ráðherra vildi fyrir alla muni ekki styggja vini sína innan Evrópusambandsins. Og við hvað er þessi hræðsla? Stjórnarandstaðan er sökuð um hræðsluáróður. Hvað með ríkisstjórnina sem hvað eftir annað gefur í skyn að ef við samþykkjum ekki þennan agalega samning gerist eitthvað enn þá hræðilegra. Og hvað á það að vera? Við einangrumst og vinaþjóðir okkar fara væntanlega í einhvers konar efnahagslegar refsiaðgerðir gegn okkur.

Hvers vegna ættu Bretar, Hollendingar eða Þjóðverjar að vilja leggja íslenskt efnahagslíf í rúst? (Gripið fram í.) Þeir eiga gífurlega mikið undir því að íslenskt efnahagslíf rétti úr kútnum þannig að við getum greitt þeim sem mest upp í það sem fulltrúar þessara þjóða hafa lánað hingað. Það mundi nú ekki gagnast þeim að ætla að leggja Ísland í rúst.

Um hvað snýst þetta þá? [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Hvers vegna? Hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að samningurinn gerir ráð fyrir því, eins og þú sæir ef þú læsir samninginn, að þeir geta gengið að eigum íslenska ríkisins. Það er ekki flóknara en það. Það kemur fram í samningnum og þar er ekkert undanskilið. Það er að meira segja tekið fram. Það skiptir ekki máli þótt íslenskt efnahagslíf verði lagt í rúst vegna þess að þeir eru tryggðir upp í topp með þessum samningi, þökk sé hæstv. fjármálaráðherra sem hér birtist sem allt annar maður, talar eins og bankarnir gerðu. Það má ekki vera neikvæður. Hann gerir eins og bankarnir gerðu, tekur stærsta kúlulán Íslandssögunnar og hann mun uppskera eins og bankarnir gerðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)