137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Auðvitað er mjög mikilvægt að grannt sé fylgst með og það sé stöðugt endurmat á þeim úrræðum sem gripið hefur verið til vegna skuldavanda heimilanna. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að ástæða er til að fylgjast sérstaklega grannt með því hvernig greiðsluaðlögunin virkar því að ef hún er ekki að virka og virkar ekki nógu hratt og nógu vel fyrir fólk þá þarf að komast að því hvers vegna það er.

Þetta úrræði hefur virkað gríðarlega vel í nágrannalöndum okkar og það getur vel verið að við höfum farið einhverja aðra leið. Ef svo er að þetta er ekki að virka þá þurfum við að skoða það. Ég get alveg tekið undir að það sé eðlilegt að þingnefndir geri það og þingmenn en ég vil minna á að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ákvæði um það að í kjölfar úttektar Seðlabankans á skuldastöðu heimilanna, sem var kynnt held ég í síðustu viku, muni fara fram sérstakt heildarmat á þörf fyrir frekari aðgerðir og tillögur verði unnar í kjölfar úttektarinnar. Ég veit ekki betur en þessi vinna sé að fara af stað þessa dagana og það er eðlilegt að þingið fylgist grannt með henni og taki þátt í henni.

Mér er kunnugt um að í hv. félagsmálanefnd var fyrir skömmu farið mjög rækilega yfir þetta úrræði um greiðsluaðlögun. Það er rúmur mánuður síðan greiðsluaðlögun fasteignaveðlána tók gildi og á mánudaginn var tók gildi reglugerð sem heimilar að skuldaniðurfelling sé ekki skattskyld sem er þá miklum mun einfaldara úrræði og bankarnir geta notað. (Forseti hringir.) Þetta var hluti af þessum pakka í vor en er núna fyrst að koma til framkvæmda og ég bind nokkrar vonir við það.