Stuðningur við Icesave-samninginn

Mánudaginn 22. júní 2009, kl. 15:07:27 (1821)


137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

stuðningur við Icesave-samninginn.

[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vona að þessar áhyggjur hv. þingmanns reynist ástæðulausar en ég þakka umhyggju hans fyrir málinu. Svarið er nei. Breskum stjórnvöldum hefur að sjálfsögðu ekki verið gerð grein fyrir neinu slíku, enda var þetta samkomulag undirritað á grundvelli þess samningsumboðs eða þeirra fyrirmæla sem framkvæmdarvaldið fékk frá Alþingi í desember um að leiða þetta mál til lykta með samningum, og í kjölfarið á því að samninganefndir með umboð frá ríkisstjórn höfðu verið skipaðar var málið þannig leitt til lykta. Það er núna verið að leggja lokahönd á frumvarp með fylgiskjölum þar sem gögn þessa máls verða framreidd og ég vonast til að það nái dreifingu hér strax eftir að þing kemur saman að nýju eftir nefndadaga sem eru fram undan frá og með morgundeginum. Ég held að hv. þingmenn geri réttast í því að anda rólega, þó að ég þakki umhyggjuna eins og áður segir, og bíða þess að málið komi fyrir þing.