Þjóðaratkvæðagreiðslur

Þriðjudaginn 30. júní 2009, kl. 20:06:26 (2219)


137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[20:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp um almenna framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík lög eru ekki til í landinu og full ástæða til að setja þau. Í stjórnarskránni eru tilgreind þrjú tilvik þar sem ber að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Í 11. gr. er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu ef þrír fjórðu þingmanna hafa krafist þess að forseti yrði leystur frá embætti áður en kjörtímabili hans lýkur. Í 26. gr. er mælt fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu ef forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar, eins og stendur í stjórnarskránni, og í 79. gr. er mælt fyrir um slíka atkvæðagreiðslu ef Alþingi samþykkir breytingu á kirkjuskipun ríkisins.

Það má segja að tími sé kominn til að setja almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslu, nú 65 árum eftir að þessi stjórnarskrá tók gildi. Það er þó alveg óþarfi að víkja eitthvað frá því. Eins og við vitum öll er meginástæða þess að þetta frumvarp er flutt núna ekki sú, heldur vegna þess að í þingsályktun sem samþykkt hefur verið um að sækja um aðild að Evrópusambandinu kemur einnig fram að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um væntanlegan aðildarsamning.

Fræðimenn telja almennt óheppilegt að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslu með stuttum fyrirvara eða fyrir einstakar þjóðaratkvæðagreiðslur því að þá er talin hætta á að löggjöfin verði sniðin að viðfangsefninu eða því sem greiða á atkvæði um. Þess vegna er nauðsynlegt að til séu almenn lög um slíkar atkvæðagreiðslur. Nú eru auðvitað ekki bæði þessi skilyrði uppfyllt með þessu frumvarpi. Skilyrðið um stuttan fyrirvara er vissulega uppfyllt því að það eru ábyggilega allnokkrir mánuðir, ef ekki meira en ár, þangað til slík þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin ef við náum samningum um aðild að Evrópusambandinu. Hinu skilyrðinu, um viðfangsefnið, er ekki að fullu náð. Frumvarpið tekur hins vegar til þjóðaratkvæðagreiðslu almennt án tillits til þess hvert efni hennar er en ekki þessarar einstöku þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið og má því ætla að síðara skilyrðið sé líka uppfyllt, a.m.k. að hluta.

Þar sem sérreglur geta átt við í nokkrum atriðum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru haldnar samkvæmt stjórnarskránni, svo sem um tímafresti o.fl., koma slíkar reglur fram í frumvarpinu eftir því sem við á. Um hina almennu þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ekki er samkvæmt stjórnarskránni, gerir frumvarpið ráð fyrir að Alþingi geti með þingsályktunartillögu ákveðið að halda slíka atkvæðagreiðslu um tiltekið mál og skal atkvæðagreiðslan fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillagan hefur verið samþykkt á Alþingi. Alþingi skal standa fyrir víðtækri kynningu á því málefni sem borið er undir þjóðaratkvæði og forsætisnefnd Alþingis skal setja nánari reglur um fyrirkomulag kynningar. Allt sýnast mér þetta atriði sem gætu átt við um hvaða efni sem kjósa ætti um.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að talning atkvæða fari fram eins og í forsetakosningum og að niðurstaða kosninga í hverju kjördæmi sé tilkynnt. Mér finnst umhugsunarvert hvort þetta sé hin rétta leið eða hvort e.t.v. mætti haga talningu þannig að allir kjörseðlar væru fluttir á einn stað og þannig lægi fyrir niðurstaða þjóðarinnar en ekki byggðanna til efnisins sem kosið er um. Þann sama hátt tel ég að ætti einnig að hafa uppi við forsetakjör.

Í 2. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.“

Og í 48. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Af þessu er alveg ljóst að til að hægt sé að setja lög um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að breyta stjórnarskránni. Eðli máls samkvæmt kveður þetta frumvarp því á um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við getum svo haft mismunandi skoðanir á því hvernig stjórnmálamenn eiga að líta á úrslit ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir mína parta tel ég að það sé erfitt fyrir alþingismenn að hunsa niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þeir séu siðferðilega bundnir af henni. Ég er á hinn bóginn alveg klár á því að hver og einn yrði að gera það upp við sjálfan sig og ekki væri hægt að vísa til neinna annarra skuldbindinga. Ég sé heldur ekki að þetta ætti að snúa öðruvísi við alþingismönnum sem kosnir væru eftir að þjóðaratkvæðagreiðslan hefur farið fram, jafnvel þó að þeir hefðu háð kosningabaráttu í millitíðinni. Virðist mér í því dæmi að kosningabarátta þess þingmanns hlyti að hafa gengið út á að fara gegn þeim vilja sem komið hefði fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni og þykir mér það lítil virðing fyrir skoðun þjóðarinnar. En þetta er huglægt vandamál og líklegast ekki neitt eitt rétt svar við því.

Hér á landi hefur fulltrúalýðræði verið við lýði. Ég er þeirrar skoðunar að það sé full ástæða til að endurskoða og setja í stjórnarskrá ákvæði þess efnis að við ákveðnar aðstæður sé hægt að vísa málum til þjóðarinnar. Í þeim efnum má hugsa sér þá fyrirmynd sem er í dönsku stjórnarskránni um að þriðjungur þingmanna geti innan ákveðins frests krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem þingið hefur samþykkt. Fjárlög og ýmis lög um skatta eru þó undanskilin þessu í Danmörku. Í þeirri stjórnarskrá er einnig ákvæði um að breytingar á stjórnarskránni skuli bera undir þjóðina. Þetta finnst mér einnig gott ákvæði og mætti mjög fylgja því fordæmi. Þá eru til dæmi annars staðar um að tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Það tel ég einnig að gæti verið til eftirbreytni.

Langtímamarkmiðið er að slíkar atkvæðagreiðslur verði bindandi. Þjóðin á að hafa lokaorðið. Þess vegna er ég ekki meðmælt því að setja slíkar heimildir í almenn lög um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eins og þessi tillaga hér hlýtur eðli máls samkvæmt að vera. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að almenn löggjöf af þessu taginu er líkleg til að því verði frestað að stíga skrefið til fulls og endurskoða stjórnarskrána að þessu leyti og það þarf að endurskoða hana til að koma einmitt á ákvæðum um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og í raun mörg önnur atriði.