137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get ekki skilið síðasta ræðumann öðruvísi en svo að hann ætli að segja nei jafnvel þó að þjóðin segi já í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það kemur mér ekki á óvart vegna þess að skoðanir vinstri grænna á þjóðaratkvæðagreiðslum breytast nú dag frá degi. Steingrímur J. telur þjóðina ekki hæfa til að fjalla um Icesave-samninginn, hann telur hana hins vegar geta það um væntanlegan samning um Evrópusambandið. Í sama streng tók hæstv. forsætisráðherra í gær. Ég treysti þjóðinni reyndar miklu betur en Vinstri grænir til að klára þetta mál.

Varðandi vextina á lánunum frá Norðurlöndunum man ég ekki betur en að hæstv. viðskiptaráðherra sem situr nú hér í salnum hafi fullyrt í ræðustól Alþingis á mánudaginn að við yrðum að samþykkja Icesave-skuldbindingarnar vegna þess að annars fengjum við ekki lánin frá Norðurlöndunum. (Gripið fram í.) (GÞÞ: Nákvæmlega.) Hvað var verið að skrifa undir í morgun annað en lánin frá Norðurlöndunum?

Síðan kemur hann í fjölmiðla í dag og heldur því fram að við munum svo sannarlega geta staðið undir þessum u.þ.b. þúsund milljörðum sem munu falla á okkur. Verður ekki líka að taka tillit til þess að hugsanlega verður eitthvert útstreymi en ekki innstreymi eins og hæstv. viðskiptaráðherra virðist gefa sér að verði? Er þetta bara þannig að hér verði blóm í haga næstu árin? Falla ekki 200 milljarðar á ríkissjóð 2011? Hvernig ætlar íslenska þjóðin að standa undir þessu?

Hvernig væri að við fengjum Icesave-málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og létum þjóðina skera úr um þann vonda samning? Getur verið að stjórnvöld (Forseti hringir.) treysti sér ekki í það vegna þess að þjóðin mun segja nei?