Málefni Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 01. júlí 2009, kl. 15:53:38 (2281)


137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[15:53]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Það er stutt síðan rætt var sérstaklega um björgunargetu þyrlna í þessum sal og tengist þessi umræða öll starfsemi Landhelgisgæslunnar í heild sinni. Ég ætla aðeins að fara yfir stöðu rekstrar Landhelgisgæslunnar nú í byrjun.

Hallinn árið 2008 var 6% af fjárheimildum og er verið að vinna á þeim halla auk þess sem gerð var hagræðingarkrafa til Landhelgisgæslunnar líkt og annarra ríkisstofnana á þessu ári. Reksturinn nú er með þeim hætti að það horfir í það að hann verði ekki með halla áfram. Þar er mjög ábyrgur rekstur hvað fjárheimildir varðar. Þá er spurningin: Ríma fjárheimildirnar við það sem menn ætlast til að Landhelgisgæslan eigi að gera og það hlutverk sem henni er ætlað að sinna lögum samkvæmt? Það er það sem ég tel að við séum að ræða í dag.

Landhelgisgæslan starfar á geysilega víðfeðmu svæði og það verður að líta til þess hvernig rekstrinum hefur verið háttað, þ.e. hvernig forsvarsmenn Landhelgisgæslunnar hafa unnið að því að mæta þeirri stöðu sem upp er komin í rekstrinum ásamt því að geta sinnt því lögboðna hlutverki sem Gæslunni er ætlað að sinna. Það hefur verið efling viðbúnaðar Landhelgisgæslunnar undanfarin ár sem miðar að því að Landhelgisgæslan geti tekið virkan þátt í samstarfi við aðrar þjóðir á sviði leitar og björgunar.

Ef við komum nánar að því hefur töluvert starf verið unnið undanfarin ár í því skyni að efla samstarf við erlend stjórnvöld og innlenda aðila til að auka getuna til leitar og björgunar á hafinu umhverfis Ísland. Landhelgisgæslan og danski flotinn eiga náið samstarf á grundvelli samstarfssamnings sem gerður var á árinu 2007 og eru nú að vinna að gerð sameiginlegrar viðbragðsáætlunar vegna slysa á hafsvæðinu á milli Íslands og Grænlands og Íslands og Færeyja. Sú uppbygging sem hefur verið á tækjakosti Gæslunnar undanfarin ár hefur gert okkur kleift að taka mun virkari þátt í samstarfi af þessu tagi og kemur okkur til góða nú. Það munar mjög um þá nýju flugvél sem bættist við flugflota Gæslunnar í dag en hún gjörbyltir getu okkar til að taka þátt í umfangsmiklum aðgerðum á hafinu í kringum landið.

Ég vil geta þess að á árinu 2005 var gerður mikilvægur samningur milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar um verkefni á sviði leitar- og björgunarmála, m.a. um rekstur björgunarbáta félagsins í þágu leitar og björgunar á sjó og starfsemi sjóbjörgunarsveita. Ég tel að huga þurfi að því með hvaða hætti þessi samningur geti nýst betur í starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Svo við víkjum að þyrlunum sérstaklega er orðið ljóst að þau þyrlukaup sem á sínum tíma var ákveðið að ráðast í með Norðmönnum munu dragast nokkuð og er ekki fyrirsjáanlegt að nýjar þyrlur verði tilbúnar á grundvelli þess samstarfs fyrir árið 2014, fyrst og fremst vegna þess að norsk stjórnvöld telja nauðsynlegt að fara betur yfir málið áður en efnt verður til útboðs. Þessi staða kallar á sérstaka athugun á þyrlumálum Gæslunnar, a.m.k. til skamms tíma. Það verður að huga að því, eins og fram hefur komið áður í umræðum um björgunarþyrlurnar, hvort það séu nægilega hagkvæmir samningar á leigu á þyrlunum. Það kostar á ári annars vegar 114 milljónir og hins vegar 320 milljónir að leigja þær tvær þyrlur sem við leigjum nú og þarf auðvitað að skoða hvort hægt sé að finna einhverjar hagkvæmari lausnir. Nefnt hefur verið í þessum sal hvort lífeyrissjóðirnir geti með einhverjum hætti komið að þessum málum en það er eitt af því sem huga þarf að.

Þá þarf líka að athuga, nú þegar nýtt skip kemur til landsins á næsta ári, hvort við neyðumst til að leggja öðru hvoru af eldri skipunum. Hvað varðar það að leigja út skip eða flugvél liggur fyrir að við munum kanna hvort unnt sé að leigja þau til tímabundinna verkefna. Sú umleitan hefur ekki borið árangur enn þá (Forseti hringir.) og ég býst við því að þar geti verið á brattann að sækja.

Ég tel að lokum, virðulegi forseti — ég er að ljúka máli mínu — að það sé tími til kominn að endurskoða ákveðna þætti Landhelgisgæsluáætlunarinnar og ég tel að ef vilji er fyrir hendi geti allir þingflokkar komið að þeirri endurskoðun með einhverjum hætti.