Málefni Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 01. júlí 2009, kl. 15:59:15 (2282)


137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[15:59]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er þörf umræða á þessum merka degi í sögu Landhelgisgæslunnar af því að það er morgunljóst að við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum til að efla starfsemi Landhelgisgæslunnar sem allra mest við þær erfiðu aðstæður sem núna eru þannig að hún geti sinnt sínu lögbundna mikilvæga hlutverki við eftirlit annars vegar og hins vegar við björgun og gagnvart sjófarendum og íslenskum útvegi öllum og sérstaklega þar sem umferð um Norðurhöf mun fyrirsjáanlega aukast mjög mikið vegna hlýnunar og hnattrænnar þróunar í þeim málum.

Þess vegna skiptir líka miklu máli að beina kröftunum öllum í einn farveg, að skyld starfsemi sé rekin saman til að ná margvíslegum samlegðaráhrifum, hagrænum og faglegum. Þar til grundvallar liggur að mínu mati sameining Landhelgisgæslunnar og Varnarmálastofnunar þar sem mjög öfluga umgjörð utan um þá starfsemi alla er að finna á vallarheiðinni í ákveðinni byggingu sem ríkið þarf að halda úti vegna annarra hluta. Þar er hægt að búa nýrri stofnun Landhelgisgæslunnar og Varnarmálastofnunar mjög gott umhverfi. Hins vegar er óþolandi að óvissa hangi yfir framtíð þessara stofnana og þarf að vinna hratt, taka afdráttarlausa ákvörðun um það sem allra fyrst að þessi sameining gangi eftir en stjórnvöld hafa margoft lýst vilja til þess á liðnum mánuðum. Ég held að við eigum að nota þetta tækifæri núna, þau tímamót sem nú eru, til endurskoðunar á öllum opinberum rekstri, til að taka ákvörðun um þetta með það fyrir augum að stórefla starfsemi beggja stofnananna þannig að skyld starfsemi nái saman og það má ekki stranda á togstreitu ráðuneyta um það hvar vista á nýja sameinaða stofnun. Það þarf að ganga hratt og örugglega í þetta verkefni, vinna það í sumar og ljúka því á haustþingi.