Málefni Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 01. júlí 2009, kl. 16:15:31 (2289)


137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[16:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Til hennar var boðað af minni hálfu vegna þeirra erfiðleika í rekstri Gæslunnar sem eru fyrirséðir og að við verðum að leita allra leiða til að hagræða og koma skikki á hlutina. Ég fagna því hugmyndum sem fram komu hjá ráðherra um að skipa sérstaka nefnd sem fara mun ofan í þetta og reyna að tryggja að Gæslan geti í framtíðinni sinnt þeim lögbundnu skyldum sem henni ber að sinna.

Hægt er að hagræða með mörgum hætti, eins og ég fór í gegnum í stuttri ræðu minni áðan. Ég nefndi að samningurinn við Dani gæti verið forsmekkur að frekara samstarfi og samningum við aðrar vinaþjóðir. Samningurinn sem hæstv. dómsmálaráðherra vitnaði til, við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um aðkomu Gæslunnar að nýtingu 14 björgunarskipa hringinn i kringum landið, getur örugglega verið eitt skrefið í þessu. Við verðum að hafa það í huga að verkefni þyrlnanna eru um 75% á landi og 25% á hafi. Rekstrarkostnaður á stórri þyrlu fyrir hverja klukkustund er um 350 þús. kr. á meðan hann er um 150 þús. á Dolfi-þyrlu eins og stóru þyrlunnar okkar á sínum tíma.

Ég vil taka undir þau sjónarmið sem komið hafa fram um að við verðum að leita hagræðis og sameiningar í rekstri ríkisins á þessum þáttum og við verðum að vera viss um það og reyna að eyða þeirri togstreitu sem vart hefur orðið milli ráðuneyta þegar kemur að uppskiptingu verkefna.

Ég hafna því alfarið og lýsi mig algjörlega ósammála þeim hugmyndum að Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Það er í raun kátlegt að fylgjast með því ósætti sem er innan Samfylkingarinnar um þessi mál þegar samgönguráðherra talar um sérstakt átak til að byggja samgöngumiðstöð.

Virðulegi forseti. Okkur hættir til að gleyma erfiðum atvikum í sögu þjóðarinnar á liðnum árum þegar við ræðum um þessi mál í dag. (Forseti hringir.) Það hefur verið farið yfir það hér hversu mikilvægt það er að starfsemi Gæslunnar sé í blóma og að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Við verðum að bregðast við (Forseti hringir.) og eyða þeirri óvissu sem er um starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar.