Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 01. júlí 2009, kl. 20:39:00 (2326)


137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er liðið að lokum þessarar umræðu sem ég vil þakka. Hún hefur verið yfirgripsmikil og upplýsandi. Ég vil endurtaka það sem ég sagði fyrr í dag að það er greinilegt að sparisjóðirnir í landinu eiga hauka í horni þar sem eru þingmenn og það tel ég mjög mikilvægt og það hefur verið staðfest í umræðunni í dag. Ég hlýt því að endurtaka enn og aftur að það er markmið þessa frumvarps að styrkja sparisjóðina í landinu, að tryggja að þeir geti verið hluti af endurreistu fjármálakerfi sem verður vonandi heilbrigðara og gagnsærra en við áður bjuggum við.

Ég hef hlustað grannt eftir því sem fulltrúar minni hlutans í hv. viðskiptanefnd hafa haft fram að færa í dag. Þegar maður rýnir í nefndarálit minni hlutans sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Borgarahreyfingar skrifa undir þá kemur þar fram að þeir telja að breytingartillögur þær sem meiri hluti nefndarinnar hefur flutt séu til bóta. Þeir telja enn fremur að það sé nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um sparisjóði og lög um fjármálafyrirtæki. Í nefndarálitinu er ekki lagst gegn 7. gr., þ.e. að veitt verði heimild til að mæta tapi og rétta af varasjóði með því að skrifa niður stofnfé. Hins vegar kemur fram tillaga frá hv. þm. Eygló Harðardóttur um að fella þá grein út en hún skrifar einnig undir þetta nefndarálit.

Í nefndarálitinu kemur einnig fram og hefur endurspeglast í umræðum hræðsla við að sparisjóðir rati í ríkiseigu. Það er ekki markmið þessa frumvarps og það er ekki markmið neyðarlaganna að ríkið legði undir sig fjármálastofnanir í landinu. Ríkissjóður fékk þessi fjármálafyrirtæki upp í fangið við fall bankanna. Það er undarlegt að hlusta á að það sé kannski einhver mesta ógnin sem yfir fjármálakerfinu vofi um þessar mundir, að sparisjóðirnir verði ríkisvæddir. Það er ekki markmið þessara laga. Það er þvert á móti markmið laganna að hægt verði að virkja heimildina í neyðarlögunum til að ríkið geti komið sparisjóðunum til bjargar.

Það kemur fram í nefndarálitinu einnig að það skiptir máli hvernig ríkið muni fara út úr þessu eignarhaldi aftur hvað varðar sparisjóðina en auðvitað á það við um önnur fjármálafyrirtæki líka. Fulltrúar minni hlutans hafa sumir hverjir lagt á það áherslu fyrir nefndinni að það beri að bíða eftir umfjöllun um frumvarp um Bankasýslu sem fyrir hv. viðskiptanefnd liggur. Ég vil rifja upp að sú bið gæti tekið nokkurn tíma með því að Bankasýslunni, þegar henni hefur verið komið á kopp, er ætlað að starfa eftir eigendastefnu sem eftir á að leggja fyrir þingið og stjórn Bankasýslunnar er síðan ætlað með frumvarpinu að móta reglur um sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Allt gæti þetta tekið nokkurn tíma og er með fullri virðingu fyrir þessum sjónarmiðum, þessari hræðslu við ríkisvæddar fjármálastofnanir, ekki það brýnasta á dagskrá þessarar ríkisstjórnar núna. Það er ekki eins og menn standi í biðröðum til að kaupa hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjunum, því miður. Það liggur meira á því að skilja milli gömlu og nýju bankanna og að ríkið standi þar við sínar skuldbindingar og borgi það sem á milli ber en að fara að leggja á ráðin um það einn, tveir og þrír hvernig ríkið á að fara út úr þessu.

Það er yfirlýst að Bankasýslunni er ætlað að starfa í 5 ár að hámarki. Það segir sitt um stefnumark þessarar ríkisstjórnar að þá á að liggja fyrir, alveg klárlega, hvernig ríkið ætlar að selja hluti sína í þessum fjármálastofnunum og Bankasýslunni er ætlað að gera tillögur um hvernig það verður. Eitt er víst að þar höfum við vítin að varast. Það er ekki meiningin og kemur ekki til álita — vona ég, ég vona að allir hv. þingmenn taki undir það — að farið verði í einkavinavæðingu eins og gert var með ríkisbankana forðum, Landsbankann og Búnaðarbankann, heldur hlýtur eigendastefnan og stefnan um það hvernig ríkið fer út úr eignarhaldi sínu á fjármálafyrirtækjum sem það fékk óumbeðið upp í fangið að byggjast á öðru en því að skapa einkavinum góða aðstöðu til gróðatöku.

Mat mitt eftir að hafa farið yfir álit minni hlutans er að það sé á einhvern hátt ósk um að setja allt í biðstöðu, að bíða enn um sinn, sjá nú til. Ég get ekki fallist á það. Ég vil ítreka það sem kom fram á fundi viðskiptanefndar í dag að hver dagur í þessu efni skiptir máli.

Ég sagði fyrr í dag að það hefði ekki náðst, því miður, að ljúka þessu máli þannig að lögin gætu tekið gildi fyrir 1. júlí, sem er í dag, en ég ítreka að hver dagur skiptir máli. Því hafði ég vonast eftir því, virðulegi forseti, að það væri jafnvel hægt að greiða atkvæði um þetta mál og gera það að lögum fyrir helgi en ég heyri að það er ekki vilji til þess hjá minni hlutanum, því miður.

Eitt að lokum varðandi minnihlutaálitið. Það kemur ekki fram hvort þeir þingmenn sem rita undir það hyggjast styðja frumvarpið eða breytingartillögur minni hlutans. Það hlýtur því að koma í ljós og ég hef kallað eftir því hjá sumum þingmönnum í dag í umræðunni og ekki fengið við því svör, menn vilja skoða málið áður en þeir gera upp hug sinn.

Ég vil segja aðeins varðandi umræðuna um 7. gr. og niðurfærslu stofnfjár að menn eru að tala um að þessi 7. gr. sé í letur færð til að einhverjum pólitískum markmiðum verði náð, að það séu einhver pólitísk markmið að færa niður stofnfé. Ég sé ekki hvaða pólitík markmið það ættu að vera með fullri virðingu fyrir þessum orðum, þá sé ég ekki hvaða pólitísk markmið það ættu að vera. Ég ítreka að hér er verið að skapa möguleika til þess að nýir stofnfjáreigendur geti komið í sparisjóðina, ríkið, sannarlega á grundvelli neyðarlaganna, og aðrir stofnfjáreigendur. Til þess er nauðsynlegt að leita heimildar í lögum til að færa niður stofnféð. Það er ekki rétt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði áðan að í lögunum kæmi fram að það væri óheimilt að færa niður stofnfé. Það er ekki þannig. Það hefur ekki verið í lögunum og er ekki í lögunum. Þess vegna hefur það ekki verið rétt ef menn hafa farið milli bæja og sagt svo vera.

Það er í mínum huga alveg skýrt þegar 2. gr. neyðarlaganna er lesin að menn horfa til þess að í einhverjum tilvikum þurfi að færa stofnfé niður. Þar er enginn greinarmunur gerður á hlutafé og stofnfé og þetta eru neyðarlögin sem allir hv. þingmenn samþykktu sl. haust. Það er enginn greinarmunur gerður þar á hlutafélagasparisjóðum og stofnfjársparisjóðum, ekki nokkur. Hvað þýðir það? Það þýðir að í þessu tilliti, með aðkomu ríkisins inn í hlutafélag og sparisjóði eða inn í stofnfjársparisjóði er hlutafé og stofnfé lagt að jöfnu. Og til þess að ríkið geti komist þarna að getur þurft að færa niður stofnféð þannig að ef verið er að fylgja einhverjum pólitískum markmiðum, frú forseti, þá hljóta það að vera þau pólitísku markmið sem er að finna í neyðarlögunum sem voru sett til bjargar þeim fjármálastofnunum sem hrundu í fangið á ríkinu. Niðurfærsla stofnfjár er þess vegna ekki neitt pólitískt markmið þessarar ríkisstjórnar og þetta er ekki geðþóttaákvörðun. Það kom skýrt fram fyrir nefndinni að niðurfærsla stofnfjár yrði háð endurskoðuðum ársreikningi og niðurstaða áreiðanleikakönnunar á eignasafni viðkomandi sparisjóðs. Þess vegna er það að ekki er hægt að setja eina reglu um hámark niðurfærslu. Það er einnig og verður ákvörðun fundar stofnfjáreigenda hvort stofnfé verður fært niður eða ekki. Það er enginn sem getur tekið þá ákvörðun annar en fundur stofnfjáreigenda í samræmi við 7. gr.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði, og mér gafst ekki færi á því í stuttum tíma í andsvörum að svara því, hvort lán eða skuldir sparisjóðanna sem til eru komnar vegna viðskipta þeirra við Sparisjóðabankann sem er farinn á hausinn, hvort til álita kæmi að þau lán sem væru þá í eigu ríkisins kæmu inn í þá mynd sem verið er að draga upp með þessu frumvarpi til þess að bjarga sparisjóðunum. Ég hlýt að segja það hér að það er ekki hægt og í rauninni ekki eðlilegt að kveða á um slíkt í ákvæðum laga sem þessara um fjármálafyrirtækin almennt en ég ítreka að þó svo að ég hafi talað um endurhverfu lánin, viðskiptin, þá var það í ljósi þess að það var upplýst fyrir nefndinni að það væru 12,5 milljarðar sem þar væri um að tefla. Ég þekki ekki hvaða fjárhæðir er um að tefla í þeim lánum sem hv. þingmaður er að spyrja um. Það var ekkert fjallað um það sérstaklega í nefndinni en það var samt sem áður upplýst að ríkissjóður, fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið væru að líta á kröfur á sparisjóðina með heildstæðum hætti og að lán eða kröfur sem ríkið ætti á sparisjóðina mætti nota til að setja inn sem stofnfé eða til að setja inn sem lán. Það hlýtur því í mínum huga að gilda um önnur lán, aðrar kröfur sem ríkið á en þessar endurhverfu kröfur, án þess að ég geti nokkuð um það fullyrt, í mínum huga hlýtur það að vera þannig.

Það er margt sem hægt væri að segja meira um þessi mál, virðulegi forseti. Ég vil að lokum segja að þetta frumvarp er til þess ætlað að ríkið geti virkjað þá 20,5 milljarða kr. sem því er heimilt samkvæmt lögum að setja í sparisjóðakerfið til þess vissulega að vernda stærri hagsmuni sem eru ekki bara peningalegir, upp á 248 milljarða eins og hér var nefnt. En þetta frumvarp leysir líka úr mörgum ágreiningsefnum og vanköntum sem hafa verið uppi varðandi lagaumhverfi sparisjóðanna. Það er tekið mjög á skilgreiningum; hvað er sparisjóður? Hvað er stofnfé? Hvað eiga stofnfjáreigendur í sparisjóðnum, hvað eiga þeir ekki? Réttindi þeirra eru afmörkuð. Ákvæði um útgáfu og viðskipti með stofnfé eru einfölduð og þau eru opnuð að fullu um leið og þrengdar eru arðgreiðsluheimildir, m.a. þannig að ekki er hægt að greiða út arð nema varasjóður sé jákvæður. Um leið er skapaður grundvöllur fyrir aðkomu nýrra stofnfjáreigenda og samstarfsheimildir sparisjóðanna skýrðar og tryggðar með lögum. Loks er gagnsæið tryggt en þess hefur nokkuð gætt að menn hafi gert athugasemdir við lokaðan hóp stofnfjáreigenda í ýmsum sparisjóðum.

Ég vil að lokum, frú forseti, þakka aftur fyrir þessa umræðu. Það hefur verið óskað eftir því að málið gangi til nefndar og það er rétt og skylt að verða við því en að öðru leyti vona ég að hv. fulltrúar minni hlutans hugsi málið í nótt og greiði þessu þarfa og brýna máli atkvæði á morgun.