Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 09. júlí 2009, kl. 12:54:32 (2700)


137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[12:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem varða sparisjóðina í landinu. Þetta mál hefur verið til skoðunar í hv. viðskiptanefnd nú um nokkra hríð og að kröfu okkar í stjórnarandstöðunni var málið tekið inn til nefndar á milli umræðna til þess að við gætum unnið það aðeins betur.

Ég verð að segja það strax í upphafi að það eru mér mikil vonbrigði að okkur í nefndinni hafi ekki tekist að klára málið með betri og skýrari hætti vegna þess að markmið okkar allra er jú að koma sparisjóðunum í landinu til bjargar í þeirri erfiðu stöðu sem þeir eru og óþarft er að fjölyrða um hér. Frumvarpið átti samkvæmt markmiðum þess að taka á þeim vanda og skapa þeim styrkara lagaumhverfi til framtíðar. Ég og fleiri í minni hluta nefndarinnar erum ekki sannfærð um að þetta sé aðferðin til þess og við höfum kallað eftir vandaðri málsmeðferð í nefndinni.

Frumvarpið snýr í rauninni að tveimur atriðum: Það snýr annars vegar að björgun sparisjóðanna úr þeim bráðavanda sem þeir eru í núna og hvernig þeir uppfylla reglurnar frá 18. desember á grundvelli neyðarlaganna um að fá eiginfjárframlag úr ríkissjóði. Hins vegar erum við ekki sannfærð um það í minni hluta nefndarinnar, við sjálfstæðismenn í það minnsta, í fyrsta lagi að þetta dugi til og í öðru lagi að nauðsynlegt sé að fara í allar þessar breytingar á þessu stigi. Þá vísa ég sérstaklega til umsagnar Fjármálaeftirlitsins og ummæla gesta úr Fjármálaeftirlitinu þegar þeir komu fyrir nefndina þess efnis að það væri mjög mikilvægt að nefndin vandaði til lagasetningar og að við ættum ekki keyra þetta mál í gegn og allar þessar breytingar. Við ættum að „fókusera“ á það sem skipti máli til að bjarga sparisjóðunum. Aðalástæða þess að við vildum fá málið inn í nefnd að nýju að fá á hreint hvaða greinum við þyrftum að breyta og hverjum ekki.

Það verður að segja að það var afar fróðlegt þegar gestirnir komu annars vegar frá fjármálaráðuneytinu og hins vegar frá viðskiptaráðuneytinu, það var hæstaréttarlögmaður sem kom að samningu frumvarpsins. Aðspurð sagði fulltrúi fjármálaráðuneytisins í svari við spurningu frá mér að það væri í reynd nóg að breyta 7. gr. frumvarpsins. Ég geri ekkert lítið úr því að 7. gr. frumvarpsins er sú grein sem kannski mestur ágreiningur er um varðandi þetta frumvarp. Hér var felld breytingartillaga við 2. umr. af meiri hlutanum um að fella hana brott, en það er samt sem áður sú grein sem fulltrúi fjármálaráðuneytisins taldi vera þá einu sem þyrfti til þess að ná því markmiði sem framkvæmdarvaldið telur nauðsynlegt til þess að uppfylla skilyrði reglnanna frá 18. desember.

Nú má deila um hvort það sé réttmætt skilyrði en þetta er alla vega það sem framkvæmdarvaldið gerir að skilyrði áður en eigið fé er reitt fram og stofnfé ríkisins kemur inn í sparisjóðina. Gott og vel, það er þeirra sjónarmið.

Fulltrúi viðskiptaráðuneytisins, fyrrnefndur hæstaréttarlögmaður, var ekki sammála og — ég segi ekki vandaði um fyrir fulltrúum fjármálaráðuneytisins en sagði alveg skýrt að honum þætti þetta ekki nóg. Hann vísaði til að betra væri að breyta fleiri greinum, hann notaði það skemmtilega orðalag að ýmiss konar „snikkerí“ á lögunum væri jú ágætt í þessum efnum. Honum fyndist það vera fín lína í því þegar farið væri yfir þessi mál að breyta fleiri greinum. Í mínum huga er því enn þá fullkomlega óupplýst hvort það sé algjörlega nauðsynlegt og þarna er skoðanamunur á. Ég er þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að fara betur yfir það mál og ég er ekki sannfærð eftir vinnu nefndarinnar hvort þetta sé svona.

Hins vegar er ég sannfærð um annað og það er það sem ég hef mestar áhyggjur af, það vantar alla heildarsýn og alla framtíðarsýn inn í þetta frumvarp. Ríkið kemur inn með eigið framlag til björgunar sparisjóðunum. Það er gott. En það liggur hvergi fyrir og ég held að við eigum það jafnvel skrifað á minnisblaði frá viðskiptaráðuneytinu. Það er beinlínis sagt að ekkert hafi verið skoðað hvernig ríkið ætlaði sér út úr rekstri sparisjóðanna. Mér finnst það mjög alvarlegt þegar um svona stórt mál er að ræða að ekki sé búið að hugsa fyrir því hvernig á að ljúka því þegar vegferðin er hafin. Það vil ég gera alvarlegar athugasemdir við og ég er sannfærð um að það verði til vandræða þegar fram í sækir vegna þess að þarna er verið að ríkisvæða sparisjóðina án þess að nokkuð liggi fyrir um hvernig starfrækja eigi þá áfram, hver sparisjóðahugsunin eigi að vera eftirleiðis þegar ríkið kemur þarna inn. Hugmyndafræðinni um stofnfjáreigendanna er algjörlega vikið til hliðar með þessum hætti og því er von að ég spyrji og að spurt hafi verið: Ef þessa framtíðarsýn vantar og það liggur ekki fyrir hvernig ríkið ætlar sér út úr þessu, af hverju tekur þá ríkið ekki sparisjóðina yfir? Er það ekki hreinlegra? Þetta eru hlutir sem við vildum ræða betur og fá fleiri sjónarmið. Ég er ekki sannfærð um að við höfum rætt þetta mál til enda.

Það var fleira sem við ræddum um í nefndinni og spurðum um en fengum ekki nægilega skýr svör við, t.d. hvort hægt væri að setja einhvers konar gólf á niðurfærsluna. Hvort hægt væri að tryggja það með hagsmuni stofnfjáreigendanna og stofnfjárhugsunar, hugsunarinnar innan sparisjóðanna í huga þrátt fyrir að ríkið kæmi þar inn. Að gert væri að skilyrði að sett yrði gólf á niðurfærsluna þannig að stofnfjáreigendur hefðu einhvern hvata af því að vera þar inni. Það er grundvallarhugsunin. Við fengum skýra afstöðu frá meiri hlutanum í nefndinni, hann lagði þetta sjónarmið til hliðar. Hvers vegna ætti stofnfjáreigandi sem á stofnfé sem fært verður niður í núll og eignin þar með farin, að vilja koma sparisjóðnum sínum til hjálpar? Þessi rekstur hefur kannski ekki verið alltaf beysinn og það er eitt af vandamálunum. Hvers vegna ætti hann því eina ferðina enn að vilja koma inn með pening í sparisjóðinn sinn þegar hann veit að það er engin trygging fyrir honum?

Þá segja menn: Ja, þetta er bara eins og í bönkunum, menn töpuðu á hlutafjárkaupum, þetta er alltaf áhætta. En það er ekki hægt að bera þetta fullkomlega saman vegna þess að samkvæmt þeim lögum sem nú gilda voru menn með ákveðna tryggingu fyrir því vegna þess að heimildin til niðurskriftar er ekki staðar. Þetta er því ekki fullkomlega sambærilegt, hvað svo sem mönnum kann að finnast um hvort sú heimild ætti að vera til staðar eða ekki.

Hvatinn í framtíðinni er svo mikilvægur. Ef við erum ekki búin að hugsa fyrir því hvernig ríkið fer út þessu. Ef enginn hvati er fyrir stofnfjáreigandann til að koma inn mun ríkið bara yfirtaka þessa sparisjóði til allrar framtíðar og eyðileggja sparisjóðahugsunina. Það verður enginn annar sem kemur inn, það verður enginn annar sem sér sínum hag betur borgið með því að koma inn í sparisjóðina. Það er það sorglega í þessu máli og það var rætt hérna við 2. umr., ég tek undir með formanni nefndarinnar, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvað það varðar, það er alveg augljóst að sparisjóðirnir eiga marga vini í þessum sal. Ég sagði við þá umræðu að það væri ekkert skrýtið vegna þess að sparisjóðirnir hafa rækt hlutverk sitt vel úti um landið í áranna rás og þess vegna eiga þeir marga vini. Þeir hafa stutt við bakið á sínum byggðarlögum, stórum sem smáum. Ég kem úr Keflavík, eins og komið hefur fram við umræðu þessa máls, og þar er sparisjóðurinn hornsteinn í samfélaginu og hefur verið það um árabil. Þess vegna er mjög eðlilegt að sparisjóðurinn eigi marga vini.

Þess vegna er svo sorglegt að horfa upp á að við getum ekki sammælst um að vanda betur til verka þannig að við getum verið sammála um hvernig við eigum að koma sparisjóðunum til bjargar til framtíðar og sammála og sannfærð um að þetta sé besta leiðin. Ég er ekki sannfærð um það og ég segi eina ferðina enn: Við höfum ekki hugsað málið til enda. Við verðum að hugsa um hvernig við ætlum að enda það áður en við förum af stað.

Það hefur verið ýjað að því að við séum að tefja mál, að við séum að þvælast fyrir í mikilvægum málum og er látið að því liggja að við séum að því hér. Ég vil taka það algjörlega skýrt fram að það er alls ekki það sem við sjálfstæðismenn höfum verið að gera í þessu máli, áhersla okkar hefur verið á vandaða málsmeðferð. Við viljum vanda okkur og við viljum vita hvar við ætlum að sjá fjármálakerfið til framtíðar. Við erum í nógu miklum vandræðum fyrir án þess að við þurfum að bæta á þau með því að fara sí og æ í lögin og breyta og bæta og leiðrétta einhver mistök sem gerð eru vegna einhvers asa. Þess vegna segi ég eina ferðina enn: Tökum þá grein eða þær greinar sem máli skipta vegna björgunarinnar, klárum þær, gerum það í sameiningu en látum hitt vera. Hitt er óhugsað. Það er nefnd að störfum sem er að endurskoða málefni fjármálafyrirtækjanna og sparisjóðanna sérstaklega. Það var reyndar ekki traustvekjandi sumt af því sem kom fram varðandi þá endurskoðun en það er önnur saga. Tökum á þessu máli skynsamlega og reynum að vinna það þannig að við getum sammælst um það markmið sem ég held að við deilum öll, að koma í veg fyrir það stórslys sem við gætum staðið frammi fyrir, að sparisjóðakerfið fari á hliðina. Það leysir engan vanda að fá það kerfi í fangið líka.

Vakin hefur verið athygli á því að það eru 284 milljarðar sem liggja í innlánum í sparisjóðunum. (Gripið fram í: 248.) 284 segi ég, 248 segir formaður nefndarinnar. (Gripið fram í.) Það er vel á þriðja hundrað milljarð sem ríkið fengi í fangið og ég held að við ættum öll að sammælast um að koma í veg fyrir að svo verði. Með aðkomu ríkisins og fjárhagslegri endurskipulagningu er þarna leið til þess að koma í veg fyrir að meiri skaði verði af þessu öllu saman og bjarga þeim verðmætum sem í kerfinu liggja.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er á enda en ég vænti þess að um þetta mál verði mikil og góð umræða.