Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 09. júlí 2009, kl. 17:43:47 (2750)


137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fyrra andsvar hv. þingmanns vakti okkur miklar vonir held ég að seinna andsvarið hafi drepið þær. Það sem hv. þingmaður sagði var: Ég ætla ekki að beita mér í málinu. Það var það sem hv. þingmaður sagði. Það eru allir tilbúnir að vinna að þessum björgunaraðgerðum, menn eru búnir að segja það frá fyrsta fundi. Það eru ekki bara þingmenn sem komið hafa fram og lýst yfir áhyggjum vegna þróunar þessara mála heldur einnig umsagnaraðilar, og það af góðri ástæðu. (MSch: Ekki allir.)

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hv. kallar: Ekki allir. Það er mjög sjaldgæft að allir umsagnaraðilar séu sammála og það væri þá svolítið sérstakt ef svo væri en hins vegar hafa flestir umsagnaraðilar lýst yfir áhyggjum af þessu. Fjármálaeftirlitið bað okkur sérstaklega að fara betur yfir þetta mál.

Hv. þingmaður ætlar ekki að beita sér fyrir því, hvort sem það eru þingmenn eða umsagnaraðilar, að slegið verði á áhyggjur okkar af þessum málum og að gengið verði þannig fram að við þurfum ekki að hafa þær áhyggjur. Hér í umræðunni hafa komið fram ýmsar góðar hugmyndir. Um þær mun meiri hlutinn ekki fjalla. Formaður nefndarinnar lítur svo á að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnar að losa um eignarhlutinn í fjármálafyrirtækjum og þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi áhuga á því (Forseti hringir.) er það léttvægt meðan hann beitir sér ekki í málinu.