Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 09. júlí 2009, kl. 18:07:18 (2754)


137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað útúrsnúningur þegar hv. þingmaður talar eins og hér sé um að ræða frjálst val fyrir sparisjóðina og stofnfjáreigendur. Sparisjóðirnir í landinu eru einfaldlega í þeirri stöðu að þeim er fjár vant. Þeir þurfa að laða inn til sín nýtt eigið fé og það gera þeir með því að reyna að auka stofnfé sitt. Við vitum að menn bíða ekki í biðröðum til að fá að fjárfesta í sparisjóðum með því að koma inn með nýtt stofnfé. Þess vegna var horft til þess að ríkið kæmi að því að verja sparisjóðakerfið í landinu.

Hins vegar er það þannig að til að reyna að tryggja það að almennir stofnfjáreigendur komi inn með aukið fé þurfa menn auðvitað að ganga þannig um að stofnfjáreigendur sitji ekki eftir sviðnir eins og núna er gert ráð fyrir og mun leiða til ef þetta frumvarp verður að lögum. Þess vegna hef ég svo miklar athugasemdir við þetta mál, ég hygg og tel að það sé í raun og veru að vinna gegn sínum eigin markmiðum og þeim yfirlýsta tilgangi sem margoft hefur komið fram varðandi þetta mál.

Eins og málin hafa þróast, eins og eigið fé sparisjóðanna hefur (Forseti hringir.) verið að þróast liggur það algjörlega fyrir að það verður talin forsenda fyrir því að færa niður stofnfé mjög umtalsvert og þá erum við ekki að tala um 10%, ekki um 20% heldur miklu meira, því miður, í langflestum og mörgum tilvikum.