137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

ríkisbankarnir -- sparnaður í rekstri þingsins -- samgöngumál -- svar við fyrirspurn.

[10:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég hef miklar áhyggjur af því sleifarlagi sem einkennir núverandi ríkisstjórn, sérstaklega þegar kemur að endurskipulagningu íslensks fjármálalífs. Við ræddum hér í gær um málefni sparisjóðanna og það hefur nú opinberast að stjórnarmeirihlutinn hér á landi hefur í hyggju að ríkisvæða nokkra sparisjóði. Ég vil árétta það að hið opinbera hefur nú yfir 90% af fjármálamarkaðnum í hendi sér og nú á enn að auka afskipti hins opinbera af fjármálamarkaðnum.

Við hljótum að velta því fyrir okkur í ljósi þess að níu mánuðir eða svo eru liðnir frá því að ríkið tók yfir bankana af hverju eigendastefnan hafi ekki enn litið dagsins ljós. Í raun og veru er þetta einkenni á öllum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, öllu seinkar, það er ekki búið að endurskipuleggja bankana og við munum ekki lifa í eðlilegu umhverfi hér í samfélaginu fyrr en það hefur verið gert. Við hljótum að fara að kalla eftir því að sjá einhverjar raunverulegar aðgerðir hjá ríkisstjórninni í stað þess að þurfa að bíða og heyra það frá stjórnarflokkunum að eintómar frestanir séu í gangi. Íslenskt samfélag má ekki við því lengur að búa við það að ríkisstjórnin fresti erfiðum málum. Við horfum upp á það að við erum eitt skuldugasta samfélag í veröldinni, stórskuldug íslensk heimili og íslensk fyrirtæki búa við eina hæstu stýrivexti sem þekkjast og við komum ekki hjólum atvinnulífsins af stað nema við komum bankakerfinu í gang aftur.

Það er því orðið þreytandi, frú forseti, að hlusta á það að verið sé að vinna að gerð áætlana, tillögugerða, við sjáum engar raunverulegar aðgerðir. Við köllum eftir því að ríkisstjórnin fari að taka sig saman í andlitinu og fari í einhverjar raunverulegar aðgerðir til hagsbóta fyrir heimilin og atvinnulífið því að mér sýnist ríkisstjórnin (Forseti hringir.) fljóta sofandi að feigðarósi þegar kemur að þeim málum.