137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

ríkisbankarnir -- sparnaður í rekstri þingsins -- samgöngumál -- svar við fyrirspurn.

[10:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að halda áfram með þá umræðu sem ég hóf áðan og beindi orðum mínum til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að það kemur fram í minnisblaði til fjárlaganefndar að árið 20009, með leyfi forseta, voru fjárveitingar til Alþingis lækkaðar um nálægt 10% að raungildi. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga var hækkun frá 2008 í krónutölu 4,2%. Síðan segir: „Lagt er til að fjárveitingar verði lækkaðar um 5% til viðbótar árið 2010 eða samtals 15% lækkun milli ára.“ Svo kemur skýring á því hvernig mæta eigi þessari lækkun.

Það sem vekur athygli mína er að það kemur fram í þessu ágæta minnisblaði og er í rauninni ekki hrakið af hálfu ráðuneytanna — það er aðeins meiningarmunur á eða lítill munur þarna á útreikningum, í raun sáralítill — þar kemur fram: „Samkvæmt töflunni hér að neðan var raunlækkun aðalskrifstofu ráðuneyta frá árinu 2008 að meðaltali engin árið 2009.“

Þarna liggur hundurinn grafinn. Það er lögð mikil pressa á Alþingi að draga saman og spara meðan framkvæmdarvaldið virðist — ég ætla ekki að gera mönnum það núna að það verði þannig — virðist ætla að hanga eins og hundur á roði á þeim fjárveitingum sem framkvæmdarvaldið hefur og fær. Það er mjög óheppilegt ef það er þannig að þingið, lýðræðisarmur samfélagsins gagnvart stjórnvöldum, eigi að fara að taka á sig enn meiri sparnað og niðurskurð en það þegar hefur gert. Þingmenn verða að beita sér þannig að þingið geti haldið sjálfstæði sínu bæði fjárhagslega og ekki síst málefnalega gagnvart framkvæmdarvaldinu og lykilþáttur í því er að þingið hafi þau tækifæri sem það þarf að hafa til að afla sér upplýsinga, kaupa sérfræðinga og annað til að geta haldið hreinlega í við framkvæmdarvaldið.