Breytingartillaga og umræða um ESB

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 11:47:15 (2859)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[11:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Mikil pressa hefur verið á því að klára það mál sem við hefjum nú umræðu um í þessari viku. Þegar innt hefur verið eftir því hvers vegna klára þurfi þetta mál helst í dag eða á morgun hefur verið fátt um svör önnur en þau sem má lýsa með orðunum „af því bara“. Það er augljóst að þetta mál er eitt það stærsta sem komið hefur fyrir þingið. Það er sett fram í þingsályktunartillögubúningi sem þýðir að þingmenn hafa frekar takmarkað svigrúm til að tjá sig um það.

Fyrir liggur beiðni okkar um að lengja ræðutímann þannig að við getum rætt málið til hlítar innan þess forms sem þingsályktunartillagan leyfir. Forseti hefur það í hendi sér að gera slíkt. Forseti hefur heimild til þess og það er í takti við annað í kringum þetta mál að forseti skuli skammta tímann svo naumt sem raun ber vitni.