137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. formanns félags- og tryggingamálanefndar, Lilju Mósesdóttur, áðan. Hv. þm. Jón Gunnarsson segir að sér misbjóði sú dagskrá sem liggur fyrir og að þau þrjú mál sem hér eru, nr. 6, 7 og 8, við ræðum 6. dagskrármálið, skuli vera fyrstu mál sem hæstv. félagsmálaráðherra leggur fyrir þingið.

Ég vil láta í ljós það álit mitt að þessar þrjár tilskipanir, þessi þrjú mál skipti verulega miklu máli. Í þeim eru fólgnar miklar réttarbætur fyrir vinnandi fólk. Vinnandi fólk heldur uppi heimilum og fyrirtækjum og þess vegna er mikilvægt að ræða þessi mál og koma þeim á dagskrá. Það er nöturlegt að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skuli koma hér og tala út og suður í stað þess að tala um efni þess máls sem er á dagskrá enda hefur hæstv. forseti tekið það fram í tvígang.

Með tilskipuninni er verið að tryggja að starfsmenn komi að borðinu þegar um samruna er að ræða yfir landamæri. Af hverju skyldi þetta hafa verið stoppað á árum áður? Það er m.a. vegna þess að bankarnir gerðu, eftir því sem ég best veit, veigamiklar athugasemdir og vildu ekki sjá að ræða þau mál við starfsmenn. Nú höfum við aðra ríkisstjórn í landinu og við höfum hæstv. félagsmálaráðherra sem hefur lagt þetta fram. Málið er komið inn í þingsal eftir því sem ég best veit í fullu samkomulagi allra nefndarmanna í hv. félags- og tryggingamálanefnd. Það staðfestir hv. formaður nefndarinnar í þingsal. Þess vegna er undarlegt að hv. þm. Jón Gunnarsson skuli nota þetta þarfa mál til að veitast að stjórnvöldum og samstarfsmönnum sínum í nefndinni.