137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Nú hefur fjármálaráðuneytið loks lagt fram eigendastefnu vegna fjármálafyrirtækja. Reyndar tel ég löngu tímabært að ríkið setji sér heildareigendastefnu, sér í lagi vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á eignarhaldi fyrirtækja, stórra og smárra á síðustu mánuðum. Mjór er þó mikils vísir og er vonandi að ríkisstjórnin haldi áfram að festa á blað hugmyndir sínar um stjórnun og stefnumörkun svo almenningur hafi eitthvað í höndunum til að tryggja gagnsæi og ábyrgð stjórnvalda þegar kemur að rekstri fyrirtækja og fjármálastofnana. Eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki er ætlað að skýra fyrirætlanir ríkisins sem eigandi að fjármálafyrirtækjum meðan á endurreisn íslenska fjármálakerfisins stendur yfir.

Í upphafsorðum eigendastefnu segir, með leyfi forseta:

„Stefnan tekur mið af þessum sérstöku aðstæðum og er með henni leitast við að skapa trúverðugleika og traust á ríkinu sem eiganda, bæði út á við gagnvart öllum almenningi, viðskiptavinum fjármálafyrirtækja og erlendum lánardrottnum og samstarfsaðilum, og einnig inn á við, gagnvart Alþingi, framkvæmdarvaldinu, fjármálafyrirtækjunum, starfsfólki þeirra og stjórnendum.“

Stefnan skiptist í fjóra meginþætti:

Í fyrsta lagi er fjallað um markmið ríkisins með eignarhaldi sínu í fjármálafyrirtækjum. Með þeim markmiðum upplýsir ríkið hverju það vill ná fram með rekstri fjármálafyrirtækja í eigu þess.

Í öðru lagi er fjallað um skipulag eigendahlutverksins innan ríkisins. Gerð er grein fyrir ábyrgð hvers aðila og tengslum milli þeirra.

Í þriðja lagi eru settar fram meginreglur ríkisins sem eiganda. Um er að ræða meginreglur sem þeir aðilar innan ríkisins er fara með umsýslu eignarhluta ríkisins þurfa að fara eftir. Á þetta einkum við um Bankasýslu ríkisins.

Í fjórða lagi eru tilteknar kröfur og viðmið í rekstri fjármálafyrirtækja.

Þetta er í fyrsta skipti sem ríkið setur sér eigendastefnu með skýrum og skriflegum hætti. Ætlunin er að þessi eigendaskipti verði síðan grunnur að almennri eigendastefnu ríkisins sem verður á næstunni og nær til allra þeirra félaga og fyrirtækja sem ríkið á hlut í. Stefnumörkun ríkisins sem eiganda er mjög mikilvæg og á að vera hluti innri stjórnarhátta ríkisins. Þar eiga að koma fram viðhorf, ásetningur, agi og skipulag sem ríkið ætlar að hafa til að ná meginmarkmiðum sínum. Þar skiptir máli að tekið sé á þáttum eins og áreiðanleika, siðferði, stjórnunarstíl og viðhorfum ríkisins, stjórnskipulegri uppbyggingu og virkni, hvernig ábyrgð á úrræðum er útdeilt og hvernig starfsmanna- og mannauðsstjórnun er háttað. Því tel ég að hægt sé að gera miklar athugasemdir við hvernig unnið hefur verið að eigendastefnunni og endurreisn bankanna á þinginu.

Frá því að þing kom saman eftir kosningar hefur verið unnið eftir tillögum frá samræmingarnefndum um endurreisn bankakerfisins og tillögum sérfræðingsins Mats Josefssons. Helstu tillögur hans byggðust á þeirri staðreynd að 90–95% af íslenska bankakerfinu yrði í eigu íslenska ríkisins og því væri mikilvægt að ríkið markaði sér skýra stefnu og kæmi á fót skýru stjórnskipulagi vegna bankanna hratt og vel. Því hefði ég talið eðlilegt að fyrst hefði ríkisstjórnin komið fram með eigendastefnu sína og síðan lagt fram nauðsynleg frumvörp til að tryggja að hægt væri að framfylgja henni. Við höfum hins vegar byrjað að vinna með eignaumsýslufélagið. Síðan fengum við frumvarp um bankasýsluna, svo kom fram um síðustu helgi að búið væri að gera samkomulag við skilanefndir Glitnis og Kaupþings sem skila áttu til þeirra nýju bönkunum og nú loksins fáum við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Ég er sannfærð um að þetta eru ekki ný vinnubrögð heldur einmitt gömlu, góðu vinnubrögðin úr bankakerfinu. Til dæmis virðast menn þar hafa uppgötvað að það væri ágætt að vera með innri endurskoðun og eftirlit með starfsháttum og eitthvað sem heitir áhættustýring og svo væri kannski nauðsynlegt að vera með jafnréttisáætlun, enda víst lög um það. En hver er árangurinn? Það voru engir eldveggir. Menn lánuðu sjálfum sér í gríð og erg, bankakerfið hrundi og eintómir karlmenn voru við stjórnvölinn. Eiginlega verð ég að segja að það er alveg sláandi hversu mikið af jakkafötum mætir á fund viðskiptanefndar í ljósi þess hversu mikið af góðum jafnréttisáætlunum er að finna bæði hjá fyrirtækjum og ríkinu.

Seinna í dag ætlum við að ræða frumvarp ríkisstjórnarinnar um Bankasýsluna og stutt er síðan lög um eignaumsýslufélagið var afgreitt. Minni hluti viðskiptanefndar hefur bent á að nú sé tími til að staldra við, kalla aftur saman samræmingarnefndina um endurreisn bankakerfisins, yfirfara eigendastefnuna og byggja stjórnskipulag upp aftur samkvæmt henni en ekki slengja henni fram þegar búið er að móta skipulag til að ramma inn og birta í litríkum bæklingum. Ég sakna einnig að ekki sé sérstakur kafli um siðferði eða hvernig koma eigi í veg fyrir spillingu í eigendastefnunni. Fátt er mikilvægara en að ríkið marki sér stefnu í siðferðismálum. Eftir græðgisvæðingu síðustu ára þar sem peningar, arðsemi og græðgi voru sett á stall og dýrkuð er kominn tími til að við skilgreinum viðhorf okkar og samfélagsábyrgð upp á nýtt.

Í eigendastefnunni er þetta hins vegar afgreitt á mjög einfaldan hátt í meginreglunum:

„Fjármálafyrirtækin skulu vera meðvituð um samfélagslega ábyrgð sína.“

Hvað þýðir þetta, að vera meðvitaður um samfélagslega ábyrgð sína?

Ég verð líka að viðurkenna að það er mjög einkennilegt að lesa fyrstu eigendastefnu ríkisins sem formaður Vinstri grænna, hæstv. fjármálaráðherra, leggur fram fyrir þingið að þar er ekki eitt orð um umhverfismál, ekki eitt einasta orð. (Gripið fram í.) Já, meira að segja fjármálafyrirtæki geta haft eitthvað um umhverfi að segja, t.d. leggja áherslu á umhverfismál, í rekstri, með vistvænum innkaupum og þjónustu við viðskiptavini sína, með áherslum um hvers konar fyrirtækjum þau lána og annað þess háttar. Ég tel að það gæti verið mjög upplýsandi fyrir hæstv. fjármálaráðherra að kynna sér Global Compact Sameinuðu þjóðanna eða siðareglur norska lífeyrissjóðsins sem er það viðmið sem norskum ríkisfyrirtækjum er ætlað að notast við þegar þau móta sér siðareglur. Samkvæmt stefnumörkun norsku ríkisstjórnarinnar eiga öll fyrirtæki í eigu norska ríkisins að móta sér siðareglur og það sem meira er, þau eiga að fara eftir þeim.

Hæstv. fjármálaráðherra sem hæst hefur talað um skort á siðferði og siðgæði í íslensku fjármálakerfi hefði átt að hafa nægan tíma síðasta hálfa árið til að koma inn svo sem einni og einni setningu um siðareglur í eigendastefnu ríkisins. Ég vona svo sannarlega að hann muni eiga gott samstarf við þingið eins og hann talaði um í ræðu sinni varðandi endurbætur á eigendastefnunni og noti þetta einstaka tækifæri til að koma fram nauðsynlegum breytingum á skipulagi og starfsháttum íslenska fjármálakerfisins.