Ríkisútvarpið ohf.

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 12:10:58 (3807)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[12:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit sem er verið að leggja hérna fram á fundi milli 2. og 3. umr. og fagna því að þetta var eitthvað sem við gátum sameinast um í nefndinni. Það voru hins vegar ýmis önnur álitamál sem komu upp við 2. umr. og þá sérstaklega hvað varðar innheimtu á þessum skatti gagnvart lögaðilum. Hv. þm. Pétur Blöndal benti sérstaklega á að það virðist reglan, eins og hún er núna, að allir lögaðilar verða skyldugir til þess að greiða þennan skatt. Tel ég að það sé ákveðið misræmi þarna á meðhöndlun á lögaðilum og einstaklingum því að í ákvæðunum um þennan skatt er talað um að það sé ákveðið lágmark á tekjum, það er ákveðið tekjuviðmið. Ef fólk uppfyllir ekki þetta tekjuviðmið er það undanskilið frá því að greiða þennan skatt. Ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað hvort það ætti að gilda það sama um lögaðila að þeir þurfi að vera með einhvers konar lágmarkstekjur áður en þeir fara að borga þennan skatt.

Ég held að við höfum verið nokkuð sammála í nefndinni að það kannski félli ekki algjörlega undir það sem við værum að ræða hérna um gjalddagana en hins vegar væri ástæða til að taka þetta upp seinna í nefndinni og skoða það frekar. Ég held að við höfum verið nokkuð sammála um að þetta væri eitthvað sem menntamálanefnd mundi vilja skoða frekar.