Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 09:54:52 (4127)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Heldur hv. þingmaður því fram að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi fengið að sjá samninginn án þess að aðrir þingmenn fengju að sjá hann? Mér er ekki kunnugt um að aðrir þingmenn hafi fengið að sjá þennan samning sem þingflokkur hv. þingmanns veitti ríkisstjórninni heimild til að skrifa undir. Hann var nefnilega ekki kynntur neins staðar. Löngu seinna birtist hann á netinu, áður en þingmenn höfðu séð hann, og öll þau fylgiskjöl sem hafa nú verið birt. Í þessu ljósi felur þingflokkur hv. þingmanns, og hann væntanlega þar með, ríkisstjórninni að skrifa undir samning sem hefur sett okkur í þá stöðu að við getum hvorki samþykkt hann né fellt vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra þjóðarinnar er búinn að skrifa undir fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar Íslands. Ef við fellum það segja útlendingar: Það er ekkert að marka þessa Íslendinga. Þetta er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir (Forseti hringir.) og þess vegna neyðumst við til að gera á því breytingar og samþykkja fyrirvara.