Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 118. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Prentað upp.

Þskj. 176  —  118. mál.
Undirskriftir.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Ljóst er að grípa þarf til róttækra aðgerða til að ná tökum á ríkisfjármálum. Ef fram heldur sem horfir stefnir í meira en 20 milljarða kr. umframkeyrslu á fjárlögum þessa árs sem samþykkt voru með 153 milljarða kr. halla. Er þá ekki meðtalinn um 20 milljarða kr. kostnaður sem fellur til vegna verðbóta láns Seðlabanka Íslands til ríkissjóðs vegna uppgjörs bankabréfanna svokölluðu og dulinn kostnaður (skuldbinding) vegna tónlistarhússins.

Áhrif frumvarpsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Bein áhrifin frumvarpsins og nýsettra laga um hækkun skatta á áfengi, tóbak og eldsneyti eru þau að afkoma ríkissjóðs er sögð batna um allt að 23 milljarða kr. á þessu ári. Áhrifin koma hins vegar mjög misjafnt niður á ólíkum aðilum þjóðfélagsins eins og sést í eftirfarandi töflu (milljarðar kr.).
    Bætt afkoma skiptist þannig:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tæplega 8% bættrar afkomu á þessu ári koma því frá sparnaði í opinberum rekstri sem verður að teljast algjörlega óásættanlegt. Í eftirfarandi töflu eru fyrstu og annarrar umferðar áhrif frumvarpsins og laganna sem þegar er búið að samþykkja.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fyrstu umferðar áhrif lýsa því hvað er beint dregið út úr hagkerfinu. Verg landsframleiðsla (VLF) mun lækka sem nemur um 23 milljörðum kr. Annarrar umferðar áhrifin (margfeldisáhrifin) eru síðan annað eins þannig að lækkun VLF gæti numið allt að 46 milljörðum kr. á þessu ári ef miðað er við hógvær margfeldisáhrif (margfaldari = 2). Umreiknað í lækkun launa og þá forsendu að hlutur launa í VLF séu 70%, sem er sennilega vanmat, eru áhrifin um 32 milljarðar kr. á þessu ári og rúmir 88 milljarðar kr. á því næsta. Ef enn er umreiknað og gert ráð fyrir að lækkun launa verði öll með fækkun starfa þá jafngildir það 915 störfum á þessu ári og 2.500 á því næsta ef miðað er við 5 millj. kr. meðalárslaun. Lækkun launa mun síðan skila sér í minni beinum sköttum og óbeinum sköttum, hærri bótum að öðru óbreyttu — eftirspurn og skattgrunnar dragast enn meira saman.
    Minni hluti nefndarinnar varar við þesssum áhrifum skattlagningarhluta þessara aðgerða og telur sig hafa fært rök fyrir að hann kunni að vinna gegn markmiðum aðgerðanna um bættan hag ríkissjóðs þar sem ekki munu nást áætlaðar auknar tekjur af framkvæmdinni vegna eftirspurnar- og skattáhrifa. Jafnframt er minni hlutinn þeirrar skoðunar að byrðarnar eigi að skiptast á annan veg þannig að stærri hluti afkomubatans eigi að koma frá aðhaldi í rekstri ríkisins og minni umsvifum þess.

Um einstakar greinar.
Um 1.–3. gr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Skattar á tekjur einstaklinga eru þrenns konar hér á landi. Tvenns konar skattar eru flatir, þ.e. tryggingagjald, 5,34%, og útsvar til sveitarfélaga sem að meðaltali er 13,1% en mismunandi eftir sveitarfélögum. Svo er tekjuskattur, 24,1% af tekjum umfram frítekjumark, 118 þús. kr., en undir því marki greiðir ríkið útsvar fyrir skattgreiðandann og tekjuskattur er því neikvæður en verður jákvæður fyrir hærri tekjur, 182 þús. kr., sjá mynd og töflu. Tryggingagjald er greitt af fyrirtækjum en það er í reynd formsatriði þar sem hækka mætti öll laun í landinu um gjaldið og láta launafólk greiða þann skatt sjálft. Launafólk greiðir tekjuskatt og útsvar af tekjum umfram frítekjumark, sem er núna 118 þús. kr. Skattstofninn er mismunandi því að 4% iðgjald launafólks í lífeyrissjóð og allt að 4% iðgjald í séreignasjóð kemur til frádráttar tekjum fyrir skatt gagnvart útsvari og tekjuskatti en ekki gagnvart tryggingagjaldi. Vegna þessa breytist útsvar til sveitarfélaga og tryggingagjald til ríkisins í hlutfalli við hækkun eða lækkun launatekna en tekjuskatturinn hækkar eða lækkar miklu meira. Ef meðaltekjur, um 400 þús. kr. á einstakling, lækka um 10% lækkar tekjuskatturinn um 18% en tryggingagjald og útsvar um 10%. Vegna þessa eru þessar tekjur ríkissjóðs mjög viðkvæmar fyrir almennri lækkun launa.
    Launafólk lítur á þær ráðstöfunartekjur sem það hefur eftir skatt og iðgjald í lífeyrissjóð en fyrirtækin líta á allan kostnað við að hafa launþegann í vinnu. Þess vegna er skattahækkun annað tveggja, launalækkun fyrir launþega eða kostnaðarauki fyrir fyrirtækin. Í tilfelli frumvarpsins munu flestir líta á hækkunina sem kostnaðarauka fyrir fyrirtækin. Meðallaun í landinu eru um 400 þús. kr. á mánuði og þessi skattahækkun kostar fyrirtækin því u.þ.b. 7 þús. kr. á starfsmann á mánuði. Miðað við stöðu fyrirtækja í landinu um þessar mundir kann þessi skattahækkun að vera sú þúfa sem veltir hlassinu og neyðir sum fyrirtæki til að segja upp fólki eða rekur þau jafnvel í gjaldþrot. Við það fækkar virkum skattgreiðendum og þeim sem þiggja bætur fjölgar. Tekjur ríkissjóðs lækka og gjöldin hækka og afkoma ríkissjóðs versnar. Þá kemur ráðstöfunin sérstaklega illa niður á mannaflsfrekum atvinnugreinum.

Tekjur Staðgreiðsla Tekjuskattur Útsvar Tryggingagjald Hátekjuskattur Nýtt tryggingagjald
0 0 0 0 0 0 0
118.182 0 -14.863 14.863 6.311 0 8.273
182.421 22.941 0 22.941 9.741 0 12.769
400.000 100.643 50.339 50.304 21.360 0 28.000
700.000 207.779 119.747 88.032 37.380 0 49.000
1.200.000 386.339 235.427 150.912 64.080 40.000 84.000

    Minni hlutinn gerir því athugasemdir við hversu raunhæfar forsendur til aukinna skatttekna sem frumvarpinu er ætlað að mynda eru.

Um 4. gr.
    Tekjuhluti frumvarpsins snýst um að hækka tryggingagjald um 2,74%, hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% í 15% og færa ýmsar tegundir matvæla (sykur) úr 7% virðisaukaskatti í 24,5%. Fyrri tvö atriðin eru í reynd skattlagning á atvinnu og sparnað, sem þó veitir ekki af að styrkja og styðja, og seinna atriðið er neyslustýring sem ekki hefur gefist vel fyrir utan það hve vafasamt er að löggjafinn reyni að hafa vit fyrir fullorðnu fólki hvaða matur er því fyrir bestu með löggjöf. Þá hafa hagsmunaaðilar lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessarar greinar.

Um 5. gr.
    Minni hlutinn vill benda á að töluverður kostnaður fellur á fjármálafyrirtæki við það eitt að breyta tölvukerfum til að þau megi uppfylla lagaskylduna.

Um 6. gr.
    Í 6. gr. kemur fram að erlendir aðilar sem hafa vaxtatekjur af fjármálagjörningum á Íslandi skuli greiða tekjuskatt af þeim tekjum.
    Í fyrsta lagi innheimtir ekkert af okkar samanburðarlöndum, Norðurlöndin, almennt skatt af vaxtagreiðslum til aðila sem eru með takmarkaða skattskyldu. Ef litið er til Evrópusambandsins þá er þar í gildi tilskipun, vaxta- og þóknanatilskipunin nr. 2003/49/EB, sem hefur það beinlínis að markmiði að afnema afdráttarskatta á vaxtagreiðslur milli félaga innan sambandsins. Þessi fullyrðing greinargerðar frumvarpsins virðist því vera úr lausu lofti gripin.
    Í öðru lagi er það ekki rétt sem segir í greinargerð frumvarpsins að verið sé að skattleggja móttakanda vaxtagreiðslna, þó að það sé vissulega tilgangur ákvæðisins. Það verða í raun íslensk fyrirtæki og einstaklingar sem bera afdráttarskattinn af vaxtagreiðslunum. Ástæðan fyrir þessu er sú að lánveitandi leggur upp með að fá visst endurgjald af lánsfjármagninu og ef kostnaður eykst við lánveitingu, t.d. vegna afdráttarskatts á vaxtagreiðslur til lánveitenda, þá er þeim kostnaði velt á lántakann. Í skuldabréfum útgefnum á alþjóðlegum fjármálamarkaði og almennum lánasamningum eru t.d. stöðluð ákvæði í þessa veru, svonefnd „gross-up“ ákvæði. Þau fela það í sér að ef eigandi skuldabréfsins, þ.e. lánveitandi, þarf að greiða afdráttarskatta af vaxtagreiðslum þá skuldbindur útgefandi bréfsins, þ.e. lántaki, sig til að greiða hærri vexti svo að lánveitandi verði jafnsettur og ef engum skatti væri haldið eftir. Hærra vaxtaálag leiðir eðli málsins samkvæmt til aukins fjármögnunarkostnaðar hjá lántakanda.
    Í þriðja lagi er mikilvægt að leiðrétta ummæli í greinargerð frumvarpsins þar sem segir að í þeim tilfellum þar sem tvísköttunarsamningar eru í gildi ætti skattbyrði móttakanda vaxtanna ekki að aukast því að þeir eiga „rétt á endurgreiðslu/frádrætti í sínu heimaríki“. Raunin er sú að veruleg hætta er á tvísköttun vaxtatekna þrátt fyrir tvísköttunarsamninga þar sem Ísland innheimtir afdráttarskattinn af brúttóvaxtagreiðslu á meðan heimaríki miðar aftur á móti endurgreiðsluna eða frádráttinn yfirleitt við nettóvaxtatekjur. Vegna þessa getur heildarskattlagning vegna vaxtagreiðslna jafnvel orðið hærri en nettótekjur lánveitandans voru vegna lánsins. Afar ólíklegt er að lánveitendur mundu sætta sig við slíkt.
    Í fjórða lagi er talsverður fjöldi lánveitenda á alþjóðlegum mörkuðum ekki skattskyldur í sínu heimaríki, t.d. erlendir lífeyrissjóðir og ýmsir fjárfestingarsjóðir. Vegna þessa er ekki um að ræða neinar skattgreiðslur þessara aðila í þeirra heimaríki og því er enginn skattur í heimaríkinu sem hægt er að nota til að draga greiddan afdráttarskatt hérlendis frá. Afdráttarskatturinn hérlendis er því ófrádráttarbær/óendurgreiðsluhæfur kostnaður fyrir slíka aðila. Af þessum sökum leitast þeir við að veita lán í ríkjum þar sem enginn afdráttarskattur er lagður á vaxtagreiðslur þeim til handa. Ákvæði þetta væri því í raun að fækka þeim aðilum sem tilbúnir væru að fjármagna íslensk fyrirtæki og ekki eru þeir margir fyrir um þessar mundir.
    Óþarfi er að fjölyrða um slæmar afleiðingar þessa ákvæðis fyrir íslenskt atvinnulíf, verði frumvarpið að lögum mun aðgengi innlendra fyrirtækja að fjármagni á erlendum fjármagnsmörkuðum versna og það litla fjármagn sem stæði til boða yrði dýrara. Íslenskt atvinnulíf þarf nú, sem aldrei fyrr, á virku aðgengi að erlendu lánsfjármagni á viðunandi kjörum að halda og mun það skipta sköpum fyrir endurreisn þess.
    Ef markmiðið er að loka fyrir undanskot frá skatti, líkt og rætt er í athugsemdum frumvarpsins, er rétt að benda á að íslensk skattyfirvöld hafa nú þegar heimildir til þess að líta fram hjá viðskiptum sem fela í sér sniðgöngu skatta.

Um 7. gr.–13. gr.
    Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við þessar greinar enda eru þær tæknilegs eðlis.

Um 14. gr.–30. gr.
    Sparnaður hjá hinu opinbera á samkvæmt frumvarpinu einungis að standa undir 8% afkomubatans en skerðing bóta 14%, sbr. 14.–16. gr. Þetta er algjörlega óásættanlegt.
    Þá skapar lenging fæðingar- og foreldraorlofs umframvernd fyrir foreldra fram yfir almenna launþega gegn uppsögnum, sbr. 18.–19. gr. Lagt er til að sérstaklega sé tekið fram að uppsagnarheimildum verði ekki breytt frá því sem nú er.
    Þá er óásættanlegt að hreyfa á ný við gjafsóknarkostnaði, sbr. 20. gr. Það er hættuleg þróun sem 21. gr. endurspeglar en þar eru þóknanir til verjenda lækkaðar og þóknanir til skipaðra réttargæslumanna eru lækkaðar skv. 22. gr.
    Óeðlilegt er að löggjafinn grípi inn í starf sjálfstætt starfandi stjórnsýslunefnda sem ráða á málefnum sínum sjálfar, sbr. 29.

Um ákvæði til bráðabirgða.
    Í ákvæðum til bráðabirgða er fjallað um svokallaðan hátekjuskatt, viðbótarskatt upp á 8% sem leggst á launatekjur yfir 700 þús. kr. Um stefnubreytingu virðist að ræða hér því skatturinn er lagður á einstakling en ekki hjón eins og áður var. Þetta þýðir að hjón þar sem annar makinn er með t.d. 900 þús. kr. í mánaðarlaun og hinn með 100 þús. kr. lenda í hærri skattprósentu en hjón sem eru bæði með 700 þús. kr. Þetta skapar óæskileg jaðaráhrif í kerfinu og er óréttlátt.
    Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að breyta ætti þessu ákvæði á þann hátt að samanlagt megi hjón hafa 1.400 þús. kr. í mánaðarlaun áður en greiðsla hátekjuskatts hefst. Lagt er til að þessu atriði verði breytt milli 2. og 3. umræðu.
    Skattur á fjármagn var ákveðinn 10% þegar sá skattur var tekinn upp með samræmdum hætti. Við samanburð á öðrum sköttum, t.d. sköttum á tekjur einstaklinga, var haft til hliðsjónar að vextir t.d. hafa innifalinn verðbótaþátt sem getur orðið umtalsverður ef verðbólga er mikil og er ekki tekjur en skattaður engu að síður. Dæmi um slíkt var innstæða sem gaf 15% vexti á síðasta ári en verðbólgan var 18%. Eigandinn tapaði um 3% á sparnaðinum en greiddi engu að síður 1,5% í fjármagnstekjuskatt. Vaxtagjöld koma heldur ekki til frádráttar.
    Rökin fyrir lægri skatti á arð og söluhagnað voru sú áhætta að hlutabréf lækki eða verði verðlaus. Þannig eru margir búnir að greiða fjármagnstekjuskatt af arði af eign sem síðan gufaði upp eða varð verðlaus í hruninu. Lægri skattur á leigutekjur var rökstudd með viðhaldskostnaði og opinberum gjöldum á húsnæði sem ekki komu til frádráttar.
    Ef allir þessir þættir kæmi inn, skattur á raunvexti (frádráttur þegar þeir eru neikvæðir), frádráttur (raun)vaxtagjalda, frádráttur tapaðra hlutabréfa og kostnaður við húsnæði, sem sanngjarn væri ef litið væri á fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur, þá mætti skatta þær eins og launatekjur en hætt er við að tekjur ríkissjóðs yrðu litlar sem engar og hvati til eyðslu mundi aukast.
    Nú er horfið frá þessari stefnu. Ber að vara við því nema tekið verði tillit til ofangreindra atriða. Það er svo sér kafli að taka upp frítekjumark eins og fyrirhugað er. Það flækir skattframkvæmdina mjög mikið og gerir kröfu um skattlagningu eftir á því fólk getur verið með innlán í mörgum bönkum, enda er um litlar upphæðir að ræða. Frumvarpið getur skilað þeim sem er undir mörkunum, þ.e. 125 þús. kr., allt að 6.250 kr. á ári. Upptaka skatts á miðju ári flækir enn fremur alla framkvæmd mjög mikið.


Alþingi, 26. júní 2009.



Tryggvi Þór Herbertsson,


frsm.


Pétur H. Blöndal.


Valgeir Skagfjörð,


með fyrirvara.



Vigdís Hauksdóttir.