Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 185  —  132. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbankans vegna Icesave- reikninganna.

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson,
Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson,
Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Siv Friðleifsdóttir, Valgeir Skagfjörð, Vigdís Hauksdóttir, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu eins fljótt og auðið er um hvort staðfesta eigi ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna. Spurningin sem lögð yrði fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu hljóði svo: „Á Alþingi Íslendinga að staðfesta ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbankans vegna Icesave-reikninganna?“

Greinargerð.


    Tillaga sú sem hér er flutt gerir ráð fyrir að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort veita eigi ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna í kjölfar samkomulags sem ríkisstjórnin hefur gert við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands um lyktir Icesave-deilunnar.
    Ekki er ljóst hverjar endanlegar skuldbindingar ríkissjóðs verða. Það fer eftir virði eignasafns Landsbanka, en ljóst er að heildarfjárhæð sem greiða þarf innstæðueigendum er yfir 700 milljörðum kr. Þar sem hér er um svo veigamikla hagsmuni að ræða, þá standa rök til þess að þjóðin hafi síðasta orðið í málinu.
    Sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið til lausnar á Icesave-deilunni er umdeild. Nægir að nefna álitsgerðir Lárusar Blöndal hæstaréttarlögmanns og Stefáns Más Stefánssonar prófessors í lögum við Háskóla Íslands. Telja þeir að ríkissjóður beri ekki fjárhagslega ábyrgð á atburðarás þeirri sem varð við hrun íslensku bankanna. Hafa þeir fært fyrir því rök að galli í reglugerðarsetningu hjá Evrópusambandinu geri íslenska ríkið skaðlaust. Þá hafa fjölmargir fræðimenn innlendir sem erlendir sett fram skoðanir í svipuðum dúr.
    Með síauknu alþjóðasamstarfi er enn brýnna en áður að fólk hafi möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki síst þar sem mikilvægir alþjóðlegir samningar geta haft úrslitaáhrif á framtíð þjóðarinnar. Í stórum málum sem snerta verulega hag þegnanna og afkomu þjóðarinnar er mikilvægt að þessi leið sé fyrir hendi. Það treystir lýðræðið í landinu og veitir stjórnmálaflokkum meira aðhald en þeir hafa nú.
    Spurning sú sem leggja á fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu hljóði svo: „Á Alþingi Íslendinga að staðfesta ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbankans vegna Icesave-reikninganna?“
    Mikilvægt er að spurningin sjálf komi fram í tillögugreininni svo að framsetning spurningarinnar vefjist ekki fyrir þeim þingmönnum sem greiða tillögunni atkvæði sitt og færi spurningin því óbreytt í dóm þjóðarinnar.
    Ljóst er að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrðu ekki bindandi í sjálfu sér. Þó má telja að Alþingi og ríkisstjórnin mundu í kjölfarið lúta niðurstöðu hennar, eins og títt er í nágrannalöndum okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki eru bindandi fyrir stjórnvöld. Ekki er í þingsályktunartillögu þessari gert ráð fyrir nánari útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslunni enda hefur ríkisstjórnin boðað að fram komi frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur á næstu dögum.
    Lagt er til að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eins fljótt og auðið er og í samræmi við boðað frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur.