Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 124. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 316  —  124. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um Bankasýslu ríkisins.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.


    Nefndin fundaði um málið að nýju á milli 2. og 3. umræðu og fékk á sinn fund Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins, Evu Ómarsdóttur og Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði. Einnig var rætt við Mats Josefsson í síma en hann var staddur í Svíþjóð. Þá barst nefndinni umsögn Samkeppniseftirlits vegna Bankasýslu ríkisins og eigendastefnu ríkisins.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið að nýju í ljósi þess samkomulags sem náðst hefur við kröfuhafa í gömlu bönkunum og komið getur til framkvæmda í kjölfar endurfjármögnunar bankanna 14. ágúst nk. Í því er m.a. gert ráð fyrir að kröfuhafar í Glitni og Gamla Kaupþingi geti eignast Íslandsbanka og Nýja Kaupþing að mestu leyti að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Einnig fjallaði nefndin um drög að eigendastefnu ríkisins sem kynnt hafa verið í þinginu og einkum þau ákvæði hennar sem snúa að Bankasýslu ríkisins.
    Meiri hlutinn telur sýnt að enda þótt samkomulagið gangi eftir og kröfuhafar eignist allt að 90% hlut í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi þá muni ríkið enn um hríð vera eini eigandi Landsbankans, eiga 10–12% eignarhlut í hinum bönkunum tveimur ásamt eignarhlutum í allmörgum sparisjóðum. Ef svo fer gæti ríkið því verið með 60–70% hlutdeild á fjármálamarkaði. Þegar frumvarpið var fyrst lagt fram var talið að ríkið yrði eini eigandi stóru bankanna þriggja. Ljóst er að ef samkomulag við erlenda kröfuhafa gengur eftir munu umsvif af rekstri eignarhluta ríkisins verða minni en ella. Engu að síður telur meiri hlutinn að umsvif ríkisins á fjármálamarkaði verði svo mikil að þörf sé fyrir Bankasýslu til að fara með þá eignarhluti. Þá bendir meiri hlutinn á að samkomulagið er ekki enn í höfn og að ekki mun skýrast hvort kröfuhafar geta uppfyllt skilyrði Fjármálaeftirlits og eru tilbúnir til að taka að sér eignarhluti í nýju bönkunum tveimur fyrr en undir lok septembermánaðar.
    Þá ræddi nefndin jafnframt breytingartillögu þess efnis að fjármálaráðherra leitaði álits nefndarinnar áður en hann skipaði í stjórn Bankasýslunnar. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að fastanefndir þingsins sinni lögbundnu hlutverki sínu og hafi eftirlit í þeim málaflokkum sem undir þær falla. Þó telur nefndin einnig nauðsynlegt að skil milli valdsviða framkvæmdarvalds og löggjafans séu skýr og ekki leiki vafi á því hvar ábyrgð á ákvörðunum liggi. Ekki verður séð að það samræmist valdsviði nefndarinnar eins og það er skilgreint í lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, að gefa álit eða veita framkvæmdarvaldinu umsögn af þessu tagi. Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að ráðherra kynni nefndinni tillögur sínar að skipun stjórnar Bankasýslunnar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 5. ágúst 2009.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Lilja Mósesdóttir.



Oddný Harðardóttir.


Guðbjartur Hannesson.