Dagskrá fundarins

Mánudaginn 01. febrúar 2010, kl. 15:29:21 (0)


138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Einn stjórnarþingmanna lét þau orð falla að hér ætti að ræða mál sem væru tilbúin til afgreiðslu þingsins og hefðu verið rædd í nefndum. Svo er ekki um þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir varðandi náttúruverndaráætlun. Því miður eru vinnubrögðin hjá hinum nýja stjórnarmeirihluta ekki betri en svo að það mál er nánast órætt í umhverfisnefnd, hagsmunaaðilar hafa ekki fengið að koma á fund nefndarinnar til þess að leggja fram og rökstyðja mál sitt. Þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og mér, sem nýjum þingmanni, ofbjóða slík vinnubrögð.

Ég vil taka undir með hv. þm. Róberti Marshall að vissulega væri gott ef við gætum reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu í einhverju máli. Þá vil ég hvetja hv. þm. Róbert Marshall til að beita sér fyrir því að þetta mál varðandi náttúruverndaráætlunina verði tekið aftur inn í umhverfisnefnd, rætt þar og það fái þar þinglega meðferð og þá virðingu sem ber að sýna þessu mikilvæga máli. Það eru ekki þau vinnubrögð (Forseti hringir.) sem núverandi meiri hluti umhverfisnefndar telur við hæfi í þessu mikilvæga máli.