Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 15:42:53 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja fundinn með því að endurtaka það sem kom fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, ég tek undir orð hans. Ég kem hér upp í tilefni af aðallega tveimur efnisatriðum sem komu fram í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar. Hann vísaði til þeirra afleiðinga sem það gæti haft að auka veiðiheimildir í skötusel, að það gæti haft alvarlegar markaðslegar afleiðingar og fullyrti að ekkert hefði verið hlustað á slíkar og þvílíkar viðvaranir við meðferð málsins.

Ég mótmæli þessu vegna þess að í nefndaráliti meiri hlutans kemur skýrt fram að áhersla er lögð á það að ráðuneytið hafi samráð við Hafrannsóknastofnun við úthlutun viðbótarveiðiheimilda í skötusel. Auk þess hefur sjávarútvegsráðherra sjálfur brugðið þeim fyrirvara undir við upphaflega smíð frumvarpsins að hér er um að ræða tímabundið bráðabirgðaákvæði sem er fyrst og fremst heimildarákvæði um að ráðstafa allt að 2.000 tonnum umfram aflamark. Það verður ekki annað sagt en að menn hafi bæði við frumvarpssmíðina sjálfa og eins í nefndarálitinu tekið tillit til þess að það þarf auðvitað að hafa lögbundið samráð við Hafrannsóknastofnun og stemma á að ósi.