Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 17:06:50 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir varfærnissjónarmið hv. þingmanns hvað varðar Hafrannsóknastofnun, en þó er nokkuð skemmtilegt að heyra þau færð fram hér í dag. Ef litið er nokkuð neðar á dagskrána hygg ég að jafnvel séu uppi einhverjar hugmyndir í þinginu um að fara ekki nokkur hundruð tonn fram úr ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar heldur tugþúsundir tonna.

Um arðinn fæ ég ekki séð að orð hv. þingmanns fái staðist, að frumvarpið sé til þess fallið að draga úr arði í greininni. Bæði er, eins og þingmaðurinn nefndi, gert ráð fyrir auknum aflaheimildum sem auðsjáanlega auka verðmætin í greininni, a.m.k. á þeim árum sem frumvarpið nær til, og sömuleiðis er gert ráð fyrir því að hæstv. ráðherra geti sett á vinnsluskyldu til að hámarka þau verðmæti sem við fáum úr afla í sjó. Enn fremur er verið að ráðstafa fjármunum í verkefnið Aukið virði sjávarafurða sem sannarlega hefur skilað okkur ágætum árangri mörg undanfarin ár. Ég held að allt þetta sé til þess fallið að auka arðinn í greininni.

Auðvitað er það ekki þannig að við í þinginu skiptumst í tvo flokka, um það að vera með eða á móti arði, það er sannarlega ekki svo. Við erum sannarlega að fjalla um það með hvaða hætti eigi að ráðstafa honum og það er það sem sáttanefndin svokallaða hefur haft á sínu borði. Það verður að vekja athygli á því að það var gert ráð fyrir því að sú nefnd hefði þegar lokið störfum þegar hér væri komið. Sá tímarammi sem sú nefnd hafði var löngu útrunninn. Sá tímarammi hefur verið framlengdur, en það er ekki hægt að bíða endalaust eftir (Forseti hringir.) því að það komi einhverjar niðurstöður úr þeirri nefnd. Það verður að vera hægt að taka ákvarðanir eins og þessar (Forseti hringir.) frá einu fiskveiðiári til annars.