Raforka til garðyrkjubænda

Miðvikudaginn 03. febrúar 2010, kl. 15:33:33 (0)


138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

raforka til garðyrkjubænda.

148. mál
[15:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fínu umræðu. Það kemur mjög afdráttarlaust fram í henni, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að það er mjög þverpólitískur stuðningur við málið hvernig sem útfærslan fer fram. Það er ánægjulegt og það stendur eftir umræðuna enda gat ég líka um það áðan að ráðherrar og stjórnmálamenn úr flestum flokkanna á Alþingi hafa komið að þessum málum með einum eða öðrum hætti, t.d. hæstv. fyrrverandi ráðherra, Einar K. Guðfinnsson, mjög myndarlega á sínum tíma. Allir sýna því mikinn velvilja að leysa þessi mál þannig að þessari öflugu og miklu grein sé komið á traustari undirstöðu.

Við eigum að forgangsraða dreifbýlinu og landbúnaðinum í hag eins og kostur er og treysta stoðir þeirra greina sem þar eru starfræktar. Þetta er ein af mestu vaxtagreinunum á síðustu árum og hefur verið mjög gaman að fylgjast með vexti grænu stóriðjunnar síðustu árin. Eins og hæstv. ráðherra — og þakka ég honum svörin — gat um þá standa yfir viðræður um garðyrkjutaxtana við iðnaðarráðuneytið og munum við kalla eftir svörum þaðan hvernig það stendur. Ég trúi því að við fáum niðurstöðu og það sem mætti kalla varanlega lausn í þetta mál, í raforkuverð til handa garðyrkju og blómarækt og grænu stóriðjunni, á næstu mánuðum. Það kom mjög sterkt fram í umræðunum að það er þverpólitísk samstaða um það og greinin þolir það ekki að málin séu óleyst og því sé ekki komið í þennan farveg. Það eru gríðarlegir möguleikar í greininni. Ekki bara það að hún spari okkur gjaldeyri upp á milljarða kr. heldur, eins og kom fram í svari frá hæstv. ráðherra, eru miklir möguleikar, bæði innan lands í geirum innan garðyrkjunnar og eins hvað varðar útflutning á tilteknum tegundum eftir því sem framleiðslugetan og gæðin aukast hér heima.