Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. febrúar 2010, kl. 16:24:44 (0)


138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við vorum að ljúka lagasetningunni sem lá til grundvallar þeirra svokölluðu strandveiða sem fram fóru á síðastliðnu sumri var frá því greint að reynt yrði að gera úttekt á reynslunni af strandveiðunum á því sumri og að Háskólasetur Vestfjarða yrði fengið til þess verks.

Hæstv. ráðherra hefur nú vísað nokkuð í þá skýrslu sem háskólasetrið sendi frá sér eftir þessa úttekt og hefur hvatt okkur sem hlýðum á þessa umræðu og tökum þátt í henni til að kynna okkur efni hennar. Ég hef gert það og ég held satt best að segja að í samantektinni í þessari skýrslu sé með mjög mergjuðum hætti og afdráttarlausum og í hnitmiðuðu máli lýst því fyrirkomulagi sem við erum að ræða og lýsingin er svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Frumraun strandveiðanna hófst með töluverðum látum í lok júnímánaðar þegar strandveiðisjómönnum var loks gefið grænt ljós á það að hefja veiðarnar. Hundruð báta þustu af stað á fyrstu tveimur vikunum en fjöldinn náði hámarki um miðbik ágúst. Í heild voru 554 bátar gerðir út af 529 útgerðum.“

Þetta er lýsingin. Þetta er mjög kunnugleg lýsing. Þetta er fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur verið notað sums staðar annars staðar þar sem menn hafa ekki treyst sér til að stjórna veiðum með öðrum hætti. Frægasta dæmið eru líklega lúðuveiðarnar í Bandaríkjunum. Lúðustofninn var verðmætur og menn skipulögðu veiðarnar með þeim hætti að hleypt var af startbyssu og svo fóru menn af stað. Auðvitað var það þannig að fyrr en varði fjölgaði svo bátunum að veiðitíminn sem menn höfðu var ekki talinn í vikum, dögum eða klukkustundum heldur mínútum. Mér finnst einhvern veginn að lýsing Háskólaseturs Vestfjarða á þessum veiðum svipi dálítið mikið til þess. Það er verið að segja okkur að þarna hafi farið af stað eins konar kapphlaup í veiðunum.

Það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir er út af fyrir sig alveg rétt, þetta er kannski ekki mjög stórt mál, þetta eru ekkert gríðarlega mörg tonn. Þetta sveiflar kannski ekki til sjávarútveginum eða sjávarútvegsumræðunni og þess vegna finnst mér að það sé alveg rétt að það er ýmislegt annað sem ég hef meiri áhyggjur af í sjávarútvegsumræðunni en þetta. En eitt er þó alla vega ljóst, sem ég held að við ættum strax að viðurkenna og fallast á til að umræðan verði efnisleg og málefnaleg, hvaða skoðun sem menn hafa á þessu fyrirkomulagi að öðru leyti, og það er að þetta er auðvitað ekki eitt af framfaramálunum í sjávarútvegi, þetta er ekki eitt af þeim málum sem veldur því að til verða ný verðmæti sem ella hefðu ekki orðið til því það er óumdeilanlegt að svo er ekki. Hér er eingöngu um það að ræða að ákveðið er að auka kvótann um 6.000 tonn og veiða hann með þeim hætti sem hér er gert. Þess vegna er alveg ljóst að þetta eykur ekki arðsemi í sjálfu sér, hvað þá hagræðingu, eða ýtir undir betri lífskjör, hvorki í sjávarútveginum né í samfélaginu, enda er það þannig að forsenda þessara veiða og réttlætingin er í raun og veru sú að haga veiðunum með þessum tiltekna hætti og framkvæma þær ekki með lágmarkstilkostnaði. Hugsun frumvarpsins gengur í raun og veru út á það að búa til einhver umsvif í kringum þetta sem ekki yrðu búin til ef þessi 6.000 tonn yrðu veidd af bátum sem núna eru gerðir út á aflamarki eða krókaaflamarki. Það er það sem þetta gengur út á vegna þess að grunntónninn í frumvarpinu er sá að opna fleirum leið inn í sjávarútveginn, ekki að nýta þá fjárfestingu sem er til staðar heldur hið gagnstæða, búa til nýja fjárfestingu, opna leið fyrir nýliðana þannig að við ættum í sjálfu sér ekkert að þurfa að þrátta um þennan þátt málsins. Hann er forsendan sem frumvarpið byggir á, að fá nýja báta inn í útgerðina, fleiri báta, fjölga fólkinu sem er að fiska en nýta ekki þau afmörkuðu tonn sem þarna er gert ráð fyrir með öðrum hætti.

Út af fyrir sig, virðulegi forseti, getur þetta verið sjónarmið sem hægt er að ræða og taka tillit til. Í sjálfu sér er hægt að færa fyrir því ýmis rök, eins og hæstv. ráðherra gerir, t.d. þau að eðlilegt sé að opna fleiri aðgangsleiðir inn í greinina og þá eigum við einfaldlega segja að það sé tilgangurinn, ekki sá að draga úr tilkostnaði, ekki sá að hámarka verðmætasköpunina heldur hin pólitísku rök að opna fleirum leið inn í útgerðina. Þeir sem hafa talað fyrir þeirri leið sem hér var farin hafa einmitt bent á að einn kosturinn sé sá að það hafi orðið til líf í höfnunum, fjárfestingar í bæjunum, í þorpunum þar sem útgerðin hefur verið rekin vegna þess að menn hafi orðið að setja á flot báta sem þeir ætluðu annars ekki að nota. Menn hafi orðið að rikka upp báta, gera þá klára, breyta þeim, kalla til verkstæðismenn o.s.frv. og ég þekki það vel, það er alveg rétt, þannig var þetta. Auðvitað urðu einhver umsvif í kringum það, þ.e. aukinn kostnaður í greininni. En vel getur verið að einhverjum finnist að það sé bara allt í lagi, það sé bara þannig að við tökum 6.000 tonn og deilum þeim út og veiðum með öðrum hætti og með annað markmið í huga heldur en við höfum almennt lagt til grundvallar í fiskveiðistjórnarkerfi okkar.

Menn tala mikið um lífið sem hafi skapast í höfnunum og sannarlega er það þannig að þegar bátarnir voru að koma að landi síðdegis þá skapaðist auðvitað líf í höfnunum á meðan þeir voru að landa o.s.frv. og auðvitað er mjög gaman að því. En við skulum hins vegar ekki gera of mikið úr þessu. Þar sem ég þekki best til lönduðu menn tíu sinnum í mánuði þrjá mánuði á ári. Öðruvísi var það ekki.

Þetta frumvarp var mikið rætt hér á síðastliðnu sumri og þá gagnrýndum við sjálfstæðismenn það á ýmsum forsendum. Við gagnrýndum það vegna þess að verið var að taka hálfan byggðakvótann í þetta. Upphaflega var það ætlun hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra að taka allan byggðakvótann. Svo var horfið frá því að hálfu og svo er búið að taka þá ákvörðun að deila bara út 6.000 tonnum og láta byggðakvótann óskertan.

Í öðru lagi bentum við á það að hólfaskiptingin sem þarna var lögð til grundvallar stæðist ekki, hún væri röng og það hefur auðvitað komið á daginn. Hólfaskiptingin hefur mistekist eins og hæstv. ráðherra var að segja áðan. Nú ætlar hæstv. ráðherra hins vegar ekki að skipta þessu með lögum, nú á Alþingi ekki að hafa neitt um það að segja hvernig þessi hólfaskipting á að vera. Hæstv. ráðherra ætlar að taka þetta vald til sín. Hann ætlar að ákveða hvernig hólfaskiptingin á að vera. Ég held að þetta sé óskynsamlegt og ég held að miklu skynsamlegra væri í þessum efnum, einfaldlega vegna þess hvernig reynslan var, að hverfa frá hólfaskiptingunni. Menn sáu auðvitað við þessu. Menn vissu það að þorskurinn mundi veiðast best á A-svæðinu, það hefði reynslan þegar sýnt og þess vegna þyrptust bátarnir þangað. Menn skráðu sig og báta sína inn á A-svæðin til að geta nýtt sér veiðina þar og þess vegna hefur þessi hólfaskipting ekki þá byggðalegu skírskotun sem menn töldu og ég var kannski í sjálfu sér ekkert endilega svo viss um í fyrra en það blasir einfaldlega við að þessi hólfaskipting er vitleysa.

Nú þarf hæstv. ráðherra líka að svara því hvernig hann hyggst haga hólfaskiptingunni á þessu fiskveiðiári, hvernig hún eigi að vera. Ætlar hann að hafa í meginatriðum óbreytt hólf, A, B, C og D? Hvernig ætlar hann að taka ákvörðun um hversu mikið eigi að fara inn á hvert hólf? Hvað á að leggja til grundvallar, veiðina í fyrra eða eitthvað annað? Hæstv. ráðherra verður í þessari umræðu að greina okkur frá því hvaða meginhugmyndir hann hefur í þeim efnum. Það er algerlega útilokað annað en að hann hafi hugsað þau mál úr því að hann er að hverfa frá því að Alþingi hafi eitthvað með það að segja hvernig hólfaskiptingin eigi að vera, þá hlýtur hann að hafa einhverjar skoðanir á því sjálfur hvernig þetta eigi að vera. Það er t.d. alls ekki ljóst hvað á að leggja hér til grundvallar og hæstv. ráðherra verður því að upplýsa það.

Í þessu frumvarpi er verið er að auka hlut strandveiðiflotans um 50%, úr 4.000 tonnum í 6.000 tonn. Gáum að því, virðulegi forseti, að þetta er að mestu leyti þorskur og hæstv. ráðherra gerir þetta á sama tíma og hann lækkar þorskkvótann úr 160 þúsund tonnum í 150 þúsund tonn. Þetta mun auðvitað hafa áhrif á þá sem eru í öðrum veiðum hvort sem það eru krókaaflamarksbátar eða aflamarksbátar. Í sjálfu sér er þetta alveg skýr stefnumörkun og það verður að segja hæstv. ráðherra til hróss, þetta er stefnumörkun um það að auka handfæraveiðar að sumri. Það er auðvitað ekki líklegt til að skapa byggðafestu eða festu í sjávarútveginum sem byggir á því að kaupandinn getur reitt sig á það að varan sé afhent allt árið um kring, enda kom því miður í ljós að aflinn til vinnslu nýttist sjaldnast mjög vel, 17% fóru til vinnslu í þeim höfnum sem landað var. Í örfáum höfnum tókst mönnum að nýta sér þetta vel en víðast hvar, í helmingi hafnanna t.d., var engu landað til vinnslu. Þetta er hálfgert áhyggjuefni og vonbrigði vegna þess að auðvitað blasti við að þessi afli yrði fyrst og fremst veiddur í litlu byggðunum utan höfuðborgarsvæðisins og vissulega vonuðum við að þetta mundi líka nýtast til fiskvinnslunnar en það varð ekki.

Nú sjáum við í hvað stefnir. Þegar búið er að opna kerfið er reynslan sú, eins og alls staðar annars staðar í heiminum, að menn sjá möguleika og auðvitað eru menn ánægðir og auðvitað segir það ekki neitt í þessari könnun háskólasetursins þegar þeir sem voru að veiða segja: Við erum sælir og glaðir með þetta. Að sjálfsögðu eru menn það sem fá tækifæri til að veiða þarna. Auðvitað er það þannig. Þeir fá auknar tekjur og það var sagt áðan að menn hafi fengið milljón eða tvær að meðaltali eftir að svæðum og auðvitað eru menn kátir yfir því. Nú er það þannig að hæstv. ráðherra viðurkennir á vissan hátt að það verði með einhverjum hætti að takmarka aðganginn og hann leggur til í þessu frumvarpi að það verði gert með því að lækka hámarksaflann sem hver bátur má koma með að landi á degi hverjum. En auðvitað mun hæstv. ráðherra fyrr en síðar, endist honum líf og aldur í þessu starfi, standa frammi fyrir því að ásóknin í pottinn mun aukast og hann verður með einhverju móti að bregðast við nema hann taki upp það fyrirkomulag sem þeir gerðu í Ameríku að fara út á bryggju 1. maí — þegar hann er að leggja af stað í kröfugönguna 1. maí — og skjóta af startbyssunni og segja: Nú megið þið hefja veiðarnar. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra vilji að það verði þannig og þá verður hæstv. ráðherra að velta því upp í umræðunni með hvaða hætti hann sjái að hægt sé að haga þessum veiðum í framtíðinni. Hann hefur þegar aukið aflann um 50% á milli ára. Ég geri ekki ráð fyrir að hann telji sig geta gert það endalaust, sérstaklega þegar hann er að skera niður aflann. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa einhverja skoðun á því.

Af því að tíminn líður hratt þá er eitt atriði sem kom mér dálítið á óvart. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að gera ákveðna breytingu. Í lögunum sem nú gilda er gert ráð fyrir því að mönnum sé að sjálfsögðu skylt að landa öllum afla í lok veiðiferðar og þarf nú varla að hafa um það mörg orð en jafnframt að hann skuli vigtaður og skráður endanlega hér á landi. Með öðrum orðum, samkvæmt þeim lögum sem nú eru í gildi má ekki flytja aflann óunninn út nema hann sé vigtaður hér á landi fyrst. Í því fólst auðvitað ákveðin takmörkun á möguleikum manna að flytja aflann út óunninn. Nú er það allt í einu orðin sérstök stefnumótun hæstv. ráðherra, gagnstætt því sem hann hefur talað um á opinberum vettvangi, að hverfa frá þessu. Nú er sagt hér í 6. tölulið 1. gr. að skylt sé að landa öllum afla í lok veiðiferðar, punktur. Og ákvæðið um að vigta heima fyrir er tekið burtu. Öðruvísi mér áður brá og ég átti ekki von á að hæstv. ráðherra mundi gera það að sérstöku baráttumáli sínu að auðvelda þennan útflutning með þeim hætti sem hæstv. ráðherra er bersýnilega að gera.

Þá vaknar líka önnur spurning og hún er þessi: Nú hefur hæstv. ráðherra breytt reglugerðinni. Hann hefur sett sérstakt 5% útflutningsálag og ef útflutningur verður einhver á óunnum fiski, er það þá þannig, virðulegi forseti, að það mun valda því að heildarpotturinn skerðist sem því nemur? Gert er ráð fyrir 5% skerðingu og auðvitað er ljóst að ef þetta gengur fram eins og þarna er þá getur það verið þannig að ef einhverjir 100 eða við skulum segja 50 bátar sjái sér hag í því að landa beint til útflutnings með þessum hætti þá skerði það aflamöguleika annarra sem eru þó að reyna að landa t.d. heima fyrir eða á íslenska fiskmarkaði.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Nú er ljóst að þessar strandveiðar hafa veruleg áhrif á heildaraflamagn sem landað er í einstökum byggðum. Nú er ákveðin reikniregla varðandi byggðakvóta sem gerir ráð fyrir því að ef aflinn eykst minnkar byggðakvótinn. Hefur hæstv. ráðherra áttað sig á því hvaða afleiðingar þetta muni hafa á byggðakvóta í einstökum byggðarlögum þar sem þessum afla hefur verið landað í mestum mæli? Hefur það komið fram? Hefur hæstv. ráðherra skoðað með hvaða hætti þetta kerfi getur haft áhrif á byggðakvótafyrirkomulagið eins og það hefur tíðkast?