Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. febrúar 2010, kl. 16:40:25 (0)


138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:40]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist eftir að hafa hlýtt á hv. þm. Einar K. Guðfinnsson finna þessu frumvarpi allt til foráttu og þá sérstaklega það sem hann valdi úr þeirri ágætu skýrslu sem nú hefur verið lögð fram, Úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna sumarið 2009 . Þar fann hann eina tilvitnun sem hann valdi sem sérstakan útgangspunkt og það var það hversu sóknin á strandveiðarnar hefði verið áköf í sumar. Hann setur út á það og lagði fyrst og fremst út af því. Þetta er spurning um að sjá glasið hálffullt eða hálftómt. Ég get valið nokkrar tilvitnanir úr skýrslunni sem eru hin eiginlega meginniðurstaða hennar og segja miklu meira um niðurstöðuna, t.d. þá meginniðurstöðu á bls. 45 að þeir sem tóku þátt í veiðunum eða höfðu afskipti af þeim eru jákvæðir í þeirra garð. Ánægja útgerðaraðila er mikil með fyrirkomulag veiðanna og vilja þeir sjá strandveiðarnar sem framtíðarfyrirkomulag við stjórn fiskveiða, svo ég vitni orðrétt í skýrsluna.

Hér kemur líka fram að almennt töldu hagsmunaaðilar að samfélagslegt mikilvægi veiðanna væri meira en hið efnahagslega. Það er einmitt sú áhersla sem menn hafa lagt á þetta mál, það eru hin samfélagslegu verðmæti. Þar kemur fram að áhrifin hafa að mestu snert aukna bátaumferð, mannlíf og sjómennsku í útgerðarbæjum. Í strandveiðibæjum með færri en 1.000 íbúa töldu 70% þeirra sem svöruðu að veiðarnar hefðu haft mjög eða frekar mikið samfélagslegt vægi. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli varðandi þetta mál. Hér er augljóslega um framfaramál að ræða og það er fagnaðarefni og tilhlökkunarefni að fá þetta mál til frekari umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.