Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. febrúar 2010, kl. 16:48:56 (0)


138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í ágætri ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar gætti ákveðins misskilnings. Hér er ekki verið að fara í gang með einhverjar stórfelldar atvinnuveiðar, einmitt ekki. Hér er verið að opna möguleika fyrir hinn almenna borgara sem uppfyllir viss skilyrði, á bát og hefur réttindi til að fara á sjó og sækja sjó undir mjög afmörkuðum forsendum. Hv. þingmaður talar um ólympískar veiðar. Ég held að þeir sem færu á Ólympíuleikana og ættu að fara að keppa að ná einhverju lágmarki í hlaupum eða slíku vildu ekki hafa svona takmarkanir. Hverjar eru þær? Þær eru samkvæmt frumvarpinu:

„Óheimilt er að stunda veiðar föstudaga og laugardaga. Ráðherra er heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á almennum frídögum.“ — Og hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir miðað við þann tíma sem fiskiskip lætur úr höfn og kemur aftur. Auk þess er líka takmarkað magn: „Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í fiskiskipi. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð. Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.“

Þetta er mjög skýr afmörkun og þess vegna er líka lögð áhersla á að þessar veiðar, þessi möguleiki fólks um land allt, dreifist á hin ólíku svæði í landinu. Það er hluti af tilganginum með frumvarpinu og með þessu fyrirkomulagi á strandveiðum, að gefa almenningi möguleika að nálgast auðlind sína á þennan hátt hvar sem hann býr á landinu en innan tiltekinna og mjög afmarkaðra marka. Menn geta svo velt því fyrir sér hvort þetta sé góð hugsjón en fyrir mér er þetta góð hugsjón.