Úrræði gegn ólöglegu niðurhali hugverka

Miðvikudaginn 17. febrúar 2010, kl. 14:41:28 (0)


138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úrræði gegn ólöglegu niðurhali hugverka.

253. mál
[14:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held áfram spurningunum um ólöglega niðurhalið. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt er verið að endurskoða höfundalögin, þó að ekki sé komin nein tímasetning á það, og einnig er áhugi hjá hæstv. ráðherra að eiga samstarf við hagsmunaaðila til þess að greina þær upplýsingar sem nú þegar eru til staðar, þannig að við vitum umfangið eða fáum betri tilfinningu fyrir því. Án þess að ég viti það get ég ímyndað mér að erfitt sé að fá það þannig að það sé fullkomlega nákvæmt. En það er ekki aðalatriðið í þessu. Aðalatriðið í þessu er að ég lít svo á að hæstv. ráðherra muni eiga samstarf við hagsmunaaðila til þess að kanna þetta og það væri æskilegt að það yrði kynnt hér þinginu og við gætum tekið umræðu um það. Kannski tökum við þá umræðu hvort sem er ef fram kemur nýtt frumvarp varðandi höfundalögin.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra til hvaða úrræða gegn ólöglegu niðurhali hugverka hefur verið gripið í nágrannaríkjum okkar. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef hafa ríki, þá sérstaklega á Norðurlöndunum, gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við ólöglegu niðurhali. Það er nú í þessu eins og flestu öðru að engin ástæða er fyrir okkur að finna upp hjólið. Það er mikilvægt fyrir okkur, þegar við erum að kortleggja þessi mál og skoða, að kanna hver þróunin er í öðrum löndum og hvað aðrar þjóðir hafa gert til þess að sporna við þessu.

Ég tek það fram að ég held að hægt sé að skoða þetta út frá ýmsum forsendum. Allar þessar tæknibreytingar gera það líka að verkum að kannski er eðlilegt að fólk líti á þetta með öðrum hætti en áður. Ef við tökum sem dæmi kvikmyndir og þætti er himinn og haf milli þess sem nú er og þess sem áður var, þegar hingað komu spólur með skipum nokkrum mánuðum eftir að efnið var frumsýnt einhvers staðar annars staðar. Nú geta öll þessi hugverk farið með leifturhraða út um allan heim. Það breytir því ekki að við lendum í ógöngum ef upp kemur sú staða að þeir aðilar sem framleiða þetta fái aldrei neitt fyrir sinn snúð. Það viljum við, held ég, ekki.

Þá er það spurningin, virðulegi forseti: Til hvaða úrræða gegn ólöglegu niðurhali hugverka hefur verið gripið í nágrannaríkjum okkar? Ég ætlast ekki til þess að hæstv. ráðherra svari fyrir hvert einasta ríki, svo að því sé til haga haldið.