Niðurhal hugverka

Miðvikudaginn 17. febrúar 2010, kl. 15:02:23 (0)


138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

niðurhal hugverka.

254. mál
[15:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Varðandi lokaorð hæstv. ráðherra get ég alveg tekið undir að það er mjög bagalegt ef lokað er á netsamband við heimili, ég tala nú ekki um ef það er út af ætluðum stuldi en ekki einu sinni sannað. Ég veit ekki hvort einhver lönd framkvæma það með þeim hætti en þetta er orðinn það stór þáttur í lífi okkar að það er sérstakt markmið í sjálfu sér að auka frekar aðgengi en minnka það. Hins vegar erum við hér að tala um raunverulegt vandamál. Mér finnst hljóma mjög vel að tónlist og hugverk verði alltaf frítt og án endurgjalds. Það er bara einn galli við það og hann er að það kostar að búa þetta til. Hér kemur t.d. hv. þm. Þráinn Bertelsson sem er þekktur kvikmyndagerðarmaður. Ég veit vel að t.d. það að búa til kvikmynd kostar nú eitthvað annað en bara vinnu kvikmyndagerðarmannanna. Það kostar mikla fjármuni og þeir fjármunir þurfa að koma einhvers staðar frá. Það eru þess vegna eðlilegar áhyggjur þeirra aðila sem framleiða menningartengt efni þegar slíku efni er dreift án endurgjalds á netinu. Það segir sig sjálft að ef þetta verður algengasta leiðin skilar það sér í mjög alvarlegum málum.

Stóra einstaka málið er það — við þurfum að mínu mati t.d. ekki að taka á þessum tímapunkti afstöðu til einstakra þátta. Í mínum huga þarf að fara að vinna að þessu og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að ganga hratt til verks. Ég held að sé afskaplega mikilvægt að láta alla aðila sem vinna að málinu koma að borðinu en gera það sem allra fyrst. Það er ekki eftir neinu að bíða í þessu þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til dáða hvað þetta varðar. Að lokum vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnaleg og góð svör.