Gengistryggð lán

Fimmtudaginn 18. febrúar 2010, kl. 14:04:04 (0)


138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[14:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna orða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, ég veit ekki betur en að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi veitt talsmanni neytenda allt það liðsinni og afhent honum öll þau skjöl sem hann hefur óskað eftir þannig að ég skil nú ekki alveg forsendur spurningarinnar. Við getum rætt það betur síðar. Við getum líka rætt ýmislegt annað betur síðar, m.a. framtíðarfyrirkomulag peningamála á Íslandi, framtíð verðtryggingarinnar, hugsanlega upptöku evru og margt því um líkt, en það tekst ekki á þeim stutta tíma sem hér er undir.

Ég mótmæli því jafnframt harðlega sem kom fram í máli nokkurra þingmanna að ríkisstjórnin, eða sá sem hér stendur, hafi sýnt eitthvert sinnuleysi í þessum málum. Þetta var unnið nákvæmlega á þann hátt sem var skynsamlegt að gera, fyrst vitaskuld af þeirri ríkisstjórn sem var við völd 2008 með bráðaaðgerðum, frystingum og öðru slíku, síðan 2009 með því að búa til meiri langtímaúrræði sem eru ekki bara greiðslujöfnunin heldur líka ýmislegt annað. Staðreynd málsins er sú að ef reiknuð er út staða lántakenda sem nýta sér þessi úrræði, hvort sem það er greiðslujöfnun eða þau úrræði sem bankarnir hafa boðið upp á að eigin frumkvæði, eins og að lækka höfuðstól verulega þegar lánum er breytt í krónur, eru þeir mjög líklega í svipaðri stöðu og jafnvel betri en þeir verða í ef dómstóll dæmir þessi erlendu eða gengistryggðu lán öll ógild og þau eru þá uppreiknuð miðað við þá vexti sem tilgreindir eru í 4. og 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu sem eru þá hagstæðustu innlendu vextirnir sem eru í boði, annaðhvort verðtryggðir eða óverðtryggðir.

Þess vegna finnst mér mjög varhugavert þegar þingmenn vekja einhverjar falsvonir um að það sé einhver von til þess að Hæstiréttur Íslands komist að niðurstöðu sem lækkar lán mjög mikið umfram það sem þegar hefur náðst fram með þeim fjölmörgu úrræðum sem eru í boði. (ÓN: Leyfa Hæstarétti að dæma það.)