Fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga

Mánudaginn 22. febrúar 2010, kl. 16:07:30 (0)


138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[16:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Hér hefur margt komið fram sem sýnir að það þarf að fara í gagngera endurskoðun á m.a. tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er það vel. Mig langar að leggja mikla áherslu á að ekki verði gripið til neinna afgerandi ákvarðana hvað varðar Sveitarfélagið Álftanes í bráð heldur verði beðið eftir að þar komi til valda ný sveitarstjórn og að samráð verði haft við þau íbúasamtök sem voru stofnuð á Álftanesi í síðustu viku og bera vitni um að íbúarnir sjálfir vilja greinilega fá að taka þátt í endurskipulagningu sveitarfélagsins.

Hafa ber í huga að þær ákvarðanir sem komu Álftanesi í þessa stöðu eru ákvarðanir fjögurra manna. Það er sá meiri hluti sem þarf í sveitarfélagi á stærð við Álftanes eins og sveitarstjórnarlög eru núna. Það þarf fjóra einstaklinga til þess að keyra málin í klessu. Í Reykjavík þarf átta. Við höfum lagt fram frumvarp um fjölgun sveitarstjórnarmanna. Það tryggir ekki endilega fjárhagslegt aðhald en það gefur vísbendingar um að það þurfi að taka tillit til fleiri sjónarmiða við rekstur sveitarfélaga en til dæmis fjögurra manna klíku. Það er skref í rétta átt.

Það er líka fráleitt að Álftnesingar, eins og margir aðrir, skuli ekki fá að notfæra sér persónukjör sem nú liggur sofandi í allsherjarnefnd. Það er óþolandi að þeir geti ekki strikað út og afskrifað þá fulltrúa sem verða í boði í sveitarstjórnarkosningum til að lýsa vanþóknun sinni á því hvernig þeir hafa hagað sér. Sumt af þessu sama fólki ætlar að stilla sjálfu sér upp í kosningum og það er miklu verra og erfiðara að stofna ný framboð en taka alvöru lýðræðislega afstöðu í gegnum persónukjör. Þarna er því komin enn ein ástæðan fyrir persónukjöri.

Sameining við Garðabæ leysir kannski eitthvað en ekki allt. Það þarf að huga að sameiningu í stærra samhengi. Ég er alveg sannfærður um að stórfelld sameining á höfuðborgarsvæðinu yrði öllum sveitarfélögum þar til góðs. Ég mun tala fyrir slíkri sameiningu, vel ígrundaðri sameiningu en ekki sameiningu eins og sumir hafa talað fyrir hér, undir svipuhöggum (Forseti hringir.) auðvaldsins eða fjármuna.