Færeyingar og EFTA -- verklagsreglur bankanna -- Icesave o.fl.

Þriðjudaginn 23. febrúar 2010, kl. 13:39:50 (0)


138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fæ núna tækifæri til að svara tveim þingmönnum og er það mér auðvitað bæði gleði og ánægja en ég hefði að sjálfsögðu viljað hafa örlítið lengri tíma.

Fyrst aðeins út af EFTA-málinu. Ég fagna orðum hv. þingmanns en vek þó athygli á því að það kemur fram í fréttinni að ástæðan fyrir því að Færeyingar hafa sett þetta á ís er að Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Það er því augljóst að menn þurfa að skoða þetta á stjórnarheimilinu og ég treysti því að menn geri það og styðji Færeyinga í þessu máli sem og öðrum. Ég held að þetta sé þess eðlis að skynsamlegt væri að skoða þetta í nefndum þingsins.

Síðan varðandi orð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, er ég mjög gamaldags maður í einföldustu mynd þess orðs. Í mínum huga eru það góð gildi sem segja að fólk eigi að vera ábyrgt og heiðarlegt í rekstri eins og annars staðar. Ég hef áhyggjur af því að við séum að gefa þau skilaboð að þau gildi séu ekki í hávegum höfð og mér sýnist að verið sé að refsa mönnum, smærri aðilum, harkalega sem lenda í erfiðleikum, oft að ófyrirsynju, oft út af forsendubresti. En svo virðist vera að það gildi aðrar reglur um þá sem tapað hafa, ekki bara fyrir sjálfum sér heldur hafa þeir svo sannarlega tapað stjarnfræðilegum upphæðum. Það er í mínum huga algerlega fráleitt. Það eiga sömu reglur að gilda fyrir alla. Við getum ekki gefið þau skilaboð að menn eigi að vera í kennitöluleik, að menn eigi bara að hafa nógu mikið undir því að ef þeir tapa nógu miklu gildi einhverjar allt aðrar reglur fyrir þá en venjulegan Íslending sem lendir svo sannarlega í vandræðum hjá bönkum og fjármálastofnunum ef honum verður á, jafnvel þótt hann eigi það ekki skilið.