Útboð Vegagerðarinnar

Miðvikudaginn 24. febrúar 2010, kl. 15:01:57 (0)


138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[15:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Hér er um mikilvægt mál að ræða. Sjálfur hef ég orðið var við það m.a. á ferðum mínum um Norðausturkjördæmi, og kannski sérstaklega miðausturland, að þar telja verktakar að fram undan sé skortur á verkefnum til að standa undir þeirri starfsemi sem þar er. Nýlega átti ég fund með forsvarsmönnum fyrirtækja á Héraði sem því miður hafa þurft að grípa til erfiðra ákvarðana í ljósi þessa. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. samgönguráðherra og ríkisstjórnina alla, og Framsóknarflokkurinn mun ekki liggja á liði sínu í því, til að stuðla að auknum vegaframkvæmdum í landinu. Það er mjög dýrt að horfa upp á það að heilu fyrirtækin séu að segja upp hundruðum einstaklinga sem fara á atvinnuleysisskrá. Við þurfum að skoða þessi mál í víðu samhengi. Við verðum einfaldlega að auka við framkvæmdir í landinu til að viðhalda atvinnustiginu því að fram undan er ekki nægjanlegur fjöldi af verkefnum. Við verðum að horfast í augu við það, þvert á flokka, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, (Forseti hringir.) og Framsóknarflokkurinn vill koma að slíkri uppbyggingu.