138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er búin að vera málefnaleg og góð og bið hæstv. ráðherra afsökunar á því að ég hafi sagt að hann væri fimmtugur. Ég hef ekki hugmynd um hvað hæstv. ráðherra er gamall, en hann sagðist vera á fimmtugsaldri. Það er miklu nákvæmara og skal hér sagt.

Hæstv. ráðherra segir þetta hafa verið óvægna umræðu og gefa engan veginn rétta mynd af því sem er að gerast í bönkunum. Það er athyglisvert að heyra þetta hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra því að hæstv. forsætisráðherra talar allt öðruvísi. Ég held að þetta sýni vandann hér í hnotskurn. Það er engin pólitísk forusta í landinu. Hér koma þingmenn úr öllum flokkum með ágætisinnlegg og benda á að það þurfi að vera stefna sem þurfi að fylgja eftir. Forusta ríkisstjórnarinnar kemur alltaf fyrir eins og erlendur ferðamaður í landinu og er ofsalega hissa á að sjá í fréttum hvað gerist þegar fjallað er um málefni bankanna. Og ef ekki er mismunun eins og ég held að tilfinning flestra sé höfum við verk að vinna við að útskýra það. Ég held að það dugi ekkert minna en að fara gaumgæfilega yfir þau mál. Vonandi er um ekkert slíkt að ræða. Það er hins vegar mjög margt sem bendir til þess og ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni sem nefndi að þau skilaboð virðast send að þeir sem fóru óvarlegast fái bestu fyrirgreiðsluna. Það eru skilaboð sem við getum aldrei sætt okkur við. Á sama hátt verðum við að fara hratt. Það verður að vinna þetta hratt en vel, bæði hvað varðar heimilin — því að fólk mun aldrei þola að það verði engin úrræði, eða léleg úrræði eins og núna er, meðan menn fá á tilfinninguna að þeir sem fóru geyst fái bestu fyrirgreiðsluna. Svo sannarlega á það líka við varðandi fyrirtækin.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn. Við í Sjálfstæðisflokknum og stjórnarandstöðunni höfum ýtt á eftir þessum málum. Við munum halda því áfram því að (Forseti hringir.) hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða.