Tekjuskattur

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 14:18:22 (0)


138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það að vísu svo að þessum stofnunum er gert að gæta aðhalds og sparnaðar í rekstri rétt eins og öðrum. Það skal ekki dreginn dulur á það þó að auðvitað megi færa góð og gild rök fyrir því að t.d. skatteftirlit sé eitt af því sem menn eigi að hugsa sig mjög vel um áður en þeir spara eða draga úr því að þar geta að sjálfsögðu verið miklar tekjur á móti að halda því uppi með öflugum hætti. Ég kýs þó að nálgast þetta ekki eingöngu frá tekjusjónarmiði sem einhver aurasál sitjandi ofan á ríkiskassanum, (BJJ: Þú átt að vera það.) sem ég vissulega á að vera, já, en það er líka önnur hlið þessara mála og það er einfaldlega að rétt sé rétt, að menn séu látnir uppfylla lög, að menn greiði það sem þeim ber. Það má ekki missa sjónar á þeim þætti. Þetta er ekki bara spurning um tekjur heldur líka um það að lög og reglur séu virt og farið sé eftir þeim og menn þurfi að sæta ábyrgð ef þeir gera það ekki, og að þeir fjármunir sem með réttu bera hinu opinbera og okkur öllum þar með skili sér og allt sé gert til að tryggja að svo sé.

Ég þekki ekki nákvæmlega samskipti skattrannsóknarstjóra og sérskipaðs saksóknara. Kannski er flæðið alveg eins í hina áttina, að skatturinn komi ábendingum úr þeirri átt yfir til sérstaka saksóknarans ef svo ber undir. Ég er ekki kunnugur því hvernig mál hafa gengið þar á milli eða ekki gengið þar á milli en ég veit að skattrannsóknarstjóri og skattyfirvöld hafa af mikilli eljusemi verið að rannsaka mál, m.a. að rekja mál til útlanda og vinna þau með samstarfsaðilum erlendis. Það er bara rétt og skylt að gera, að skattyfirvöld leggi sitt af mörkum í glímunni við þau risavöxnu verkefni sem við erum að fást við og tengjast sérstöku efnahagsástandi. Sem og er til skoðunar skaðabótaþáttur þessara mála og er sérstök nefnd að störfum sem skoðar möguleikana á því að höfða sérstök skaðabótamál ef svo ber undir að menn séu beinlínis skaðabótaskyldir vegna gerða sinna eða athafna á undanförnum árum.