138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[16:10]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Meðflytjendur að þessu máli eru Atli Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Eygló Harðardóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Mósesdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Vigdís Hauksdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Þór Saari, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.

Í þessu skyni verði:

a. gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf,

b. litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis,

c. komið á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum.

Við starfið verði leitað aðstoðar sérfróðra erlendra aðila.

Markmiðið verði lýðræðisumbætur þar sem traustum stoðum verði komið undir útgáfustarfsemi og ásýnd landsins í alþjóðasamfélaginu efld.

Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins skv. 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar.

Í greinargerð segir: Þingsályktunartillaga þessi er samin með stuðningi frá þingmönnum allra flokka. Fjölmargir virtir sérfræðingar og samtök, bæði innlend og erlend, hafa veitt ráðgjöf við vinnuna að þingsályktunartillögunni og hafa heitið áframhaldandi ráðgjöf til handa íslenskum yfirvöldum ef hún nær fram að ganga.

Framtíðarsýn fyrir Ísland: „Tjáningarfrelsi — sér í lagi fjölmiðlafrelsi — tryggir þátttöku almennings í ákvörðunum og framkvæmd ríkisvaldsins, þátttaka almennings er kjarni lýðræðis.“ — Corazon Aquino, þjóðkjörinn forseti Filippseyja (1986–1992).

Þjóðin stendur nú á krossgötum og breytinga á lagaumhverfi er þörf. Á slíkum tímum er nauðsynlegt að uppgjörið gangi ekki aðeins út á að horfast í augu við fortíðina heldur jafnframt að móta skýra framtíðarstefnu fyrir land og þjóð.

Tillögurnar í greinargerðinni eru til þess fallnar að umbreyta landinu þannig að hér verði framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Slíkar breytingar mundu treysta stoðir lýðræðis, verða hvati til nauðsynlegra umbóta hérlendis og auka gagnsæi og aðhald. Stefnumörkunin gæti gefið þjóðinni aukið vægi á erlendum vettvangi og orðið lyftistöng í atvinnu- og efnahagsmálum. Þá er einnig lagt til að fyrstu alþjóðaverðlaunin sem kennd yrðu við Ísland yrðu að veruleika, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaunin.

Meginþorri heimspressunnar er í þann mund að hasla sér völl á netinu, og þar með er útgáfa ekki lengur háð staðsetningu. Lesandinn yrði þess t.d. ekki var ef efni á vefsíðu The Guardian væri gefið út í Reykjavík eða New York. Á sama tíma er viðurkennt að vandaðri blaðamennsku er hætta búin.

Ákvörðunin um hvaðan netútgáfa er rekin er byggð á skilyrðum eins og t.d. fjarlægð og fjarskiptagetu, kostnaði við netþjóna, svo sem kælingu, og lagaumhverfi. Fyrstu tvö skilyrðin eru Íslandi í hag. Öflugir sæstrengir milli sumra stærstu markaðanna fyrir upplýsingaþjónustu og hrein orka og svalt loftslag gera landið að raunhæfum valkosti fyrir þá sem halda úti og reka netþjónustu.

Mögulegt er að hrinda í framkvæmd heildrænni stefnu til að tryggja lagaumhverfi til verndar málfrelsinu sem er nauðsynlegt fyrir þá sem stunda rannsóknarblaðamennsku eða gefa út efni sem telst mikilvægt í pólitísku samhengi. Upplýsingasamfélagið má sín lítils ef stöðugt er vegið að leiðum til að koma á framfæri upplýsingum sem viðurkennt er að almenningur eigi rétt á. Þótt sum lönd hafi lögfest fyrirmyndir á þessu sviði hefur ekkert ríki enn sameinað allt það besta til að skapa sér sérstöðu svo sem hér er kynnt. Ísland hefur því einstakt tækifæri til að taka afgerandi forustu með því að búa til traustvekjandi lagaramma sem væri byggður á bestu löggjöf annarra ríkja.

Dæmi um velheppnuð lög í þessa veru eru t.d. nýleg löggjöf frá New York ríki sem hindrar að hinni illræmdu bresku meiðyrðamálaflakkslöggjöf sem skerðir fjölmiðlafrelsi og tjáningarfrelsi sé beitt þar, belgísk lög frá árinu 2005 sem vernda samskipti blaðamanna við heimildarmenn sína og fjölmiðlafrelsislögin í Svíþjóð sem sett voru með stoð í stjórnarskrá.

Lagarammi byggður á þessum fyrirmyndum á einstökum sviðum og öðrum verndarákvæðum mun laða til landsins öflug fjölmiðla- og mannréttindasamtök sem eiga undir högg að sækja í heimalöndum sínum. Bresk útgáfufyrirtæki neyðast t.d. í auknum mæli til að fjarlægja greinar og upplýsingar úr gagnagrunnum sínum til að reyna að losna undan síauknum lögsóknum stórfyrirtækja og komast hjá leynilegum tilraunum til þöggunar. Heimspressan mun hafa tilhneigingu til að vekja athygli á lagarammanum og standa vörð um hann. Til lengri tíma litið mundi það styrkja lýðræðið hérlendis. Ekki er langt síðan við fengum smjörþefinn af svívirðilegri tilraun til þöggunar þegar Kaupþing fékk það í gegn í ágúst 2009 að lögbann var sett á fréttaflutning RÚV af lánabókum bankans.

Vegna traustrar fjölmiðlalöggjafar í Svíþjóð hafa margar virtar og mikilvægar fréttaveitur sem og mannréttindasamtök flutt rafræn aðsetur sín til landsins. Einnig má nefna að netmiðillinn Malaysia Today flutti starfsemi sína til Bandaríkjanna eftir ofsóknir í heimalandinu. Þar sem lögfræði- og málskostnaður fyrir þátttakendur í upplýsingahagkerfinu hefur farið úr böndunum vegna gallaðrar lagasetningar víða um heim leita sífellt fleiri logandi ljósi að landi sem setur málaferlum gegn útgefendum skýr mörk. Að öðrum kosti er geta þeirra skert til að miðla óhlutdrægum fréttum og upplýsingum.

Ekki verður metinn til fjár sá óbeini ávinningur sem umbætur á þessu sviði gætu falið í sér, en áhrifunum af því að tvinna óbeint saman áhuga heimspressunnar og hagsmunum þjóðarinnar má líkja við leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs. Sú tillaga sem hér hefur verið reifuð mundi marka Íslandi sérstöðu á alþjóðavettvangi og ávinna okkur velvilja og virðingu meðal annarra þjóða.

Það er erfitt að ímynda sér magnaðri upprisu lands úr rústum víðtækrar fjármálaspillingar og leyndarhyggju en að bjóða upp á viðskiptalíkan gagnsæis og réttlætis.

Frú forseti. Hvað þýðir þessi tillaga á mannamáli og hverju mun hún breyta fyrir okkur? Það er jú allt í lagi með tjáningar- og upplýsingafrelsi á Íslandi — eða hvað? Allir sem fylgst hafa með því mikla skipbroti sem hér varð tóku eftir því að fjölmiðlar okkar stóðu sig ekki sem skyldi þegar kom að því að halda þjóðinni upplýstri um þá vá sem stefndi í. Upplýsingaskylda opinberra stofnana er óljós og óskilvirk. Miklar og víðtækar rannsóknir eiga sér stað í dag um hvað fór úrskeiðis fyrir hrunið mikla en það er ljóst að við verðum að hafa einhverja stefnu og byrja að sníða löggjöf sem rennir styrkum stoðum undir þau grundvallarlýðræðislegu réttindi sem tillagan felur í sér. Nú er þjóðin orðin vel upplýst um hvað aflandseyjar eru sem og skattaskjól. Hugmyndafræðin á bak við slíkar svikamyllur er að raka til sín löggjöf annarra landa til að koma á þéttum leyndarhjúp til að fyrirtæki geti svindlað á löglegan hátt.

Í skugga leyndarhyggju er gróðrarstía spillingar og fjármálaglæpa. Okkar tillaga er byggð á andstæðu slíkrar hugmyndafræði. Hér er lagt til að samhæfa löggjöf sem tryggir hið gagnstæða, að gagnsæi og upplýsingar sem almenningur á rétt á að hafa aðgang að verði tryggt með löggjöf sem þegar hefur sannað sig annars staðar í heiminum. Með því að styrkja núgildandi löggjöf að fyrirmynd laga frá öðrum löndum njótum við jafnframt verndar ef sótt er að löggjöf okkar vegna smæðar landsins.

Hérlendis hefur oft verið rætt um að hérlendis vanti mikið upp á að heildræn löggjöf í viðamiklum samfélagsþáttum sé til staðar. Það er áberandi hve gloppótt löggjöf okkar er á flestum sviðum og er þá löggjöf sem tengist tjáningar- og upplýsingafrelsi ekki undanskilin. Þessi ályktun felur í sér heildræna sýn um hvert skuli stefnt og hvernig best sé að ná markmiðum sem stefnt er að. Með því að taka löggjöf sem hefur sannað gildi sitt frá löndum sem við berum okkur gjarnan saman við og búa til heildræna löggjöf sem tekur á öllum þáttum nútímafjölmiðlunar og upplýsingafrelsis getum við markað okkur ákveðna sérstöðu í heiminum með því að vera fyrst til að taka góða löggjöf og samræma hana í takt við þá staðreynd að fjölmiðlar eru í síauknum mæli að flytja sig yfir í netheima og þeir sem best þekkja til telja að á innan við áratug verði öll útgáfa komin á netið. Með því að hafa sett í lög heildrænt regluverk sem skýtur traustum stoðum undir mál-, tjáningar- og upplýsingafrelsi erum við jafnframt að marka stefnu um hvar við viljum staðsetja okkur sem þjóð í alþjóðasamhenginu til frambúðar.

Frú forseti. Á þjóðfundinum voru mörkuð þau gildi sem þjóðin vildi efla og gera að höfuðmarkmiðum samfélagsgerðar okkar. Orðið heiðarleiki gnæfði upp úr lokaniðurstöðum og er þjóðinni greinilega hugleikið, kannski ekki furða eftir allan þann óheiðarleika sem komið hefur fram í kjölfar hrunsins. Önnur hugtök sem stóðu upp úr sem grunngildi þjóðarinnar voru virðing, réttlæti, jafnrétti og frelsi. Sú stefna til framtíðar sem hér er kynnt rúmar öll þessi hugtök því að í frelsi til tjáningar og með auknu gagnsæi þrífst heiðarleikinn og jafnréttið.

Margur Íslendingurinn fylltist stolti þegar við fyrst þjóða studdum við bakið á Eystrasaltsþjóðunum þegar þær fóru fram á sjálfstæði frá Rússum. Það sama má segja þegar talað er um Ísland í samhengi við að hafa verið landið þar sem upphafið að endalokum kalda stríðsins var. Við höfum verið þjóð sem vill kenna sig við mannréttindi, frið og frelsi. Innan þessarar framtíðarsýnar rúmast öll þessi hugtök og stefna. Nú þegar hefur verið eftir okkur tekið í alþjóðasamfélaginu fyrir að hafa lagt af stað í þessa vegferð og mun ég koma nánar að því í næstu umferð þessarar umræðu.

Það hefur því verið mjög ánægjulegt að finna þann stuðning sem þetta frekar flókna verkefni hefur notið meðal fjölmargra þingmanna. Við höfum farið ótroðnar slóðir í vinnslu og þróun á þessari þingsályktunartillögu vegna þess hve víðtækum breytingum hún kallar eftir. Við efndum því til tveggja kynningarfunda fyrir þingmenn þar sem þeim gafst kostur á að spyrja erlenda og íslenska sérfræðinga sem hafa aðstoðað og veitt ráðgjöf í tengslum við ályktunina. Við höfum jafnframt kynnt þetta fyrir fjölda aðila, fyrirtækja og stofnana sem þessar lagabreytingar munu hafa áhrif á og í hvívetna mætt miklum áhuga og jákvæðni. Okkur stendur jafnframt til boða að fá í heimsókn þrjá breska þingmenn sem hafa áhuga á að kynna fyrir okkur hve bág staða tjáningarfrelsis er þarlendis.

Frú forseti. Úti í samfélaginu er kallað eftir samstöðu þingmanna, sem og hér innan þingsins. Nú er kjörið tækifæri fyrir okkur til að sýna þjóðinni að við getum unnið saman að viðamiklum málum sem marka skýra stefnu til framtíðar, stefnu sem nú þegar hefur fært okkur velvild um heim allan. Virtir fjölmiðlar, eins og The Guardian , New York Times , BBC , TV2 , Al-Jazeera sem og óteljandi útvarpsstöðvar og prentmiðlar, hafa fjallað um málið. Þetta er mikilvæg landkynning og jafnframt mikilvægur áfangi í að efla styrk þingsins með samvinnu okkar sem hér störfum. Legg ég því til að við stofnum sérstakan þverpólitískan vinnuhóp sem muni halda áfram að vinna að því að gera þessa framtíðarsýn tjáningarfrelsis og mannréttinda að veruleika á meðan þetta er í vinnslu hér innan húss því að þó að ég mæli fyrir þessu lít ég ekki svo á að þessi sýn sé einkaréttarvarin heldur sameiginleg sýn á verkefni okkar sem að þessu stöndum.

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, hefur komið að þessu verkefni. Hann er erlendis á vegum þingsins og því ætla ég að leyfa mér að vitna í það sem haft var eftir honum um verkefnið við The Guardian , með leyfi forseta:

„Þetta er gott verkefni til að breyta stjórnmálum. Við höfum gengið í gegnum erfiða tíma og hér er á ferðinni frumkvöðlastarf sem hefur eiginleika til að sameina hið pólitíska svið í heild sinni.“

Svo langar mig að nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa komið að vinnslu ályktunarinnar, sérstaklega starfsfólki þingsins á nefndasviði fyrir frábær og fagleg vinnubrögð.