Skattahækkanir -- atvinnumál -- ESB

Þriðjudaginn 02. mars 2010, kl. 13:51:15 (0)


138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð veit og rætt hefur verið um hér í dag erum við Íslendingar í aðildarferli að Evrópusambandinu í boði Samfylkingarinnar með dyggum stuðningi Vinstri grænna. (Gripið fram í.) Nú hefur framkvæmdastjórn ESB skilað inn viðamikilli skýrslu um Ísland. Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sem er formaður utanríkismálanefndar, hvort til standi að þýða þetta plagg þannig að almenningur og hv. þingmenn, sem virðast haldnir ýmsum misskilningi um Evrópusambandið, hvernig við förum þar inn og hvenær við getum tekið upp nýjan gjaldmiðil, geti lesið sér til um þetta. Ég tel að það sé full þörf á því. Skýrslan er auk þess skrifuð á hinu merka tungumáli sem hv. þm. Árni Johnsen kallar „brusselsku“ þannig að það væri ágætt að fá hana þýdda yfir á hið ástkæra ylhýra tungumál okkar.

Hér fer fram barátta á næstu missirum um það hvort þessi aðild sé æskileg fyrir okkur eða ekki. Ég óska eftir því að sú barátta verði drengileg og málefnaleg og verði byggð á réttum upplýsingum. Því tel ég brýnt að ráðist verði í þetta verkefni sem fyrst. Ég tel að þar sem þessi skýrsla kom út fyrir tæpri viku síðan hljóti að vera farin í gang vinna við að þýða þetta vegna þess að ekki getum við látið Íslendinga sitja við það borð að einu fréttirnar af þessari skýrslu komi í gegnum hæstv. utanríkisráðherra, sem virðist túlka skýrsluna, t.d. hvað varðar sjávarútvegskaflann, á mjög frjálslegan hátt.

Spurningin er sem sagt þessi: Hvenær á að þýða skýrsluna? Hvenær liggur sú þýðing frammi? Ég vil jafnframt nýta tækifærið og hvetja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson til að beita sér fyrir því að það gerist sem fyrst.