Nemendur í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 03. mars 2010, kl. 14:26:40 (0)


138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

nemendur í framhaldsskólum.

366. mál
[14:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. ráðherra svörin. Að 500 einstaklingar skuli hafa fengið synjun um vist í framhaldsskólum um síðustu áramót er engin smátala, 500 einstaklingar sem hafa fengið synjun um skólavist á þeim tímum sem við lifum. Ég fullyrði það hér að langstærsti hlutur þessa fólks er örugglega á atvinnuleysisskrá. Ég hef miklar áhyggjur af þessum hópi og ég held að það sé vert að við hugum að þeim sem verða óneitanlega fyrir höfnun af hálfu kerfisins á þeim erfiðu tímum sem við lifum hér. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum og reyndar hæstv. ráðherra líka um að við fjölgum úrræðum og gerum menntakerfið fjölbreytilegra þannig að við getum komið til móts við sem flesta einstaklinga því að 500 einstaklingar sem fengu höfnun um skóla um síðustu áramót er gríðarlega stór hópur í ekki stærra samfélagi en Ísland er.

Hæstv. ráðherra talaði um að fólk fékk ekki inni af ýmsum ástæðum. Hún nefndi verknámið. Er íslenskt menntakerfi hreinlega orðið vanbúið til að taka við fleiri verknámsnemendum? Hæstv. ráðherra nefndi þá gríðarlegu áherslu sem bóknámið hefur fengið í íslensku framhaldsskólakerfi, en ég hef verið talsmaður þess að við byggjum upp verknám í landinu í mun meiri mæli en við höfum gert á undanförnum árum. Þess vegna væri fróðlegt að fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort hún telji að efla þurfi verknámskennslu innan framhaldsskólanna og hvort aðstaða í íslenskum framhaldsskólum sé einfaldlega svo bágborin að það þurfi að vísa fólki frá sem sækir um slíkt nám við íslenska framhaldsskóla.