138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

tilfærsla verkefna frá Umhverfisstofnun til Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

360. mál
[14:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bera upp við hæstv. umhverfisráðherra þrjár spurningar sem lúta að málefnum heilbrigðiseftirlits landsins en þó sérstaklega Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Þessar spurningar eru þær, með leyfi forseta:

1. Stendur til að færa verkefni frá Umhverfisstofnun til Heilbrigðiseftirlits Austurlands eins og heimilt er samkvæmt reglugerð nr. 786/1999, um mengunarvarnaeftirlit, og lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003?

2. Ef svo er, hvenær má ætla að af því verði?

3. Ef ekki, hver er ástæða þess og hyggst ráðherra þá beita sér fyrir slíkri tilfærslu verkefna?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er einfaldlega að sl. átta ár hefur Heilbrigðiseftirlit Austurlands leitað eftir því með formlegum og óformlegum hætti við Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið að fá að hafa með höndum eftirlitsverkefni og þvingunarúrræði sem Umhverfisstofnun hafa verið falin. Ég hef átt viðræður við sennilega þrjá umhverfisráðherra varðandi þessi mál en þetta kastast fram og til baka án þess að fyrir liggi niðurstaða.

Nú liggur fyrir að innan Heilbrigðiseftirlits Austurlands, sem og annarra heilbrigðiseftirlita í landinu, er fullkomlega fagmenntað fólk sem er fullt af metnaði og hefur þekkingu, vilja og getu til að annast þessi verkefni sem hafa færst yfir til Umhverfisstofnunar, svo ekki sé talað um þær síðustu breytingar sem leiða af breyttri matvælalöggjöf þar sem Matís eða Matvælastofnun tekur til sín verkefni frá heilbrigðiseftirlitinu. Þá er staðan orðin sú gagnvart einstaka fyrirtækjum eða starfsemi vítt um land, ekki eingöngu úti á landi heldur líka hér á höfuðborgarsvæðinu, að þrír aðilar koma inn í fyrirtækið og hafa eftirlit með starfsemi þess. Það eru heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, Umhverfisstofnun og svo Matvælastofnun. Í þessu geta ekki falist nein önnur skilaboð en þau að við höfum næga fjármuni til að sýsla með þessi verkefni eins og málum er háttað en því miður er það ekki raunin því að þetta eykur tilkostnað allra sem um þessi mál sýsla.

Ég tel það eigi að vera tiltölulega létt verk að breyta þessu og að þessu þurfi að linna, þó ekki væri nema af þeirri ástæðu að hér er um byggðamál að ræða og ekki síður kostnað fyrir viðkomandi fyrirtæki og þá atvinnustarfsemi sem rekin er í landinu. Ég heiti á hæstv. umhverfisráðherra að beita sér fyrir breytingum í þessum efnum.