Matvæli og fæðuöryggi á Íslandi

Miðvikudaginn 03. mars 2010, kl. 15:51:56 (0)


138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

matvæli og fæðuöryggi á Íslandi.

379. mál
[15:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir svör hans. Ég get þó tekið undir að spurningunum var kannski ekki svarað alveg en hins vegar fór hann ágætlega yfir ýmsa hluti í skipulagningu og pólitíkinni er varðar landbúnaðarmál og fleira innan lands sem að sjálfsögðu er að hluta til grunnur að fæðuöryggi. Ég hnaut um það í máli hans sem mér finnst athyglisvert að komi fram, að hann talaði um búvörusamningana, að þeir væru á ákveðinn hátt liður í því að viðhalda fæðuöryggi. Það er mjög gott að heyra það og mikilvægt, virðulegi forseti, að það sé haft með í umræðunni þegar verið er að tala um styrki til landbúnaðar að þeir gegna meðal annars því hlutverki að tryggja framboð af góðum og hollum mat. Þetta er gert með framleiðsluskyldu í mjólk og þetta er gert með ásetningskvöð í sauðfjársamningi og svo er samningur um framleiðslu á grænmeti. Ég vil því ítreka að mjög mikilvægt er að það komi fram að þessir búvörusamningar og þeir styrkir sem fara til bænda eru ekki einungis niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum til neytenda heldur eru þeir einnig mikilvægur þáttur þess að gæta fæðuöryggis hér.

Varðandi orð ráðherrans um samstarfsyfirlýsingu, þetta heitir víst ekki sáttmáli heldur samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, þá kom þar fram að standa ætti vörð um landbúnað og fæðuöryggi en ríkisstjórn sem hefur það að markmiði að ganga í Evrópusambandið og rústa íslenskum landbúnaði er greinilega ekki að standa við þetta ákvæði sitt.