138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er svolítið undrandi á þessari umræðu sem við eigum í í dag. Stjórnarandstaðan hefur á umliðnum vikum lagt mjög margt gott til málanna að því er varðar Icesave. Hún hefur komið af jákvæðni að málinu og hún hefur komið með hugmyndir sem hafa í reynd breytt nálgun okkar að málinu. Ég vil líka segja fyrir mína parta sem hef staðið nokkuð nálægt þessum samningaviðræðum að ég tel að stjórnarandstaðan hafi unnið af heilindum og málefnalega. Ég tel sem sagt að eitt það mikilvægasta sem hefur gerst í íslenskum stjórnmálum á síðustu vikum í kjölfar synjunar forseta á Icesave-lögunum sé einmitt sú ríka samstaða sem hefur náðst með þingheimi gagnvart nálgun málsins. Það er einmitt þess vegna sem ég er svolítið undrandi í dag.

Sú samstaða varð til í kjölfar synjunarinnar með því að forustumenn stjórnarandstöðunnar réttu höndina yfir gólf þingsins og sögðu: Eigum við ekki að vinna saman? Ríkisstjórnin tók í þessa hönd og við höfum síðan unnið saman. Þess vegna veldur það mér vonbrigðum og töluverðri undran að þegar forustumenn stjórnarandstöðunnar koma hingað í dag lýsa þeir að sjálfsögðu yfir ánægju sinni með úrslitin og segja að í þeim séu skýr skilaboð bæði til stjórnvalda og líka til þeirra sem við erum að semja við. Þeir segja sömuleiðis að þetta styrki samningsstöðuna. En bjóðast þeir til þess að halda áfram samstöðunni? Það sem mér fannst skorta á í máli þeirra tveggja hv. leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna sem hér töluðu áðan var staðfesting á því að þeir vildu vinna áfram að því að leysa þetta mál en við erum öll sammála um að brýn þjóðarheill kallar á það.

Hv. þingmenn tala um stjórn í krafti einstakra verkefna. Hvað höfum við verið að gera síðustu 5–6 vikur? Við höfum tekist saman á við verkefnið Icesave. Hvernig höfum við gert það? Við höfum hlustað á stjórnarandstöðuna. Samninganefndin var leidd af úrvals erlendum sérfræðingi. Hvaðan kom hugmyndin að því? Frá stjórnarandstöðunni. Hverjir eiga sæti í samninganefndinni? Þar er t.d. mjög öflugur íslenskur lögfræðingur fulltrúi stjórnarandstöðunnar sem ég ber fullt traust til og hefur staðið sig ákaflega vel. Um hvað snerust samningaviðræðurnar í kjölfar synjunarinnar? Um upplegg sem var m.a. búið til að frumkvæði stjórnarandstöðunnar. Hvað er þá að þeim vinnubrögðum sem hafa leitt okkur í þessa stöðu þar sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar segja að bresk og hollensk stjórnvöld skilji nú hlutina miklu betur og við vitum öll að eru nú þegar búin að leggja fram tilboð sem er miklu betra en sá samningur sem var felldur í fyrradag? Við vitum að það er meira í þessari stöðu. Það sem staðan kallar á er að við höldum áfram (Forseti hringir.) að vinna saman vegna þess að það er það sem gerir það að verkum að lokum að við munum ná ásættanlegum samningi.