Endurskoðun á samstarfsáætlun við AGS

Mánudaginn 08. mars 2010, kl. 16:11:08 (0)


138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

endurskoðun á samstarfsáætlun við AGS.

[16:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ítrekað hefur verið frestað annarri endurskoðun á samstarfsáætlun okkar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og áður hinni fyrstu endurskoðun þar á. Við hljótum auðvitað, íslensk stjórnvöld, að kalla eftir því að sú endurskoðun fari fram og líka eftir hreinum stuðningi okkar góðu frænda annars staðar á Norðurlöndunum. Um leið og við hljótum að vona hið besta verðum við auðvitað að vera viðbúin því versta.

Ég vil þess vegna inna hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eftir því til hvaða ráðstafana í efnahagsáætlun hann sjái fyrir sér að hægt sé að grípa ef ekki leysist úr þessu. Hvaða breytingar hreint faglega má fyrst og fremst notast við til að vinna okkur út úr þeim vanda sem við erum í ef ekki nýtur við þessarar áætlunar? Auðvitað eru önnur úrræði til en áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það eru tæki sem hægt er að grípa til við þær aðstæður, ýmiss konar efnahagsaðgerðir. Vegna þess hversu vel heima hæstv. ráðherra er á sviði efnahagsmála og fenginn að stjórn ríkisins sem fagmaður fyrst og fremst, sem við öll þekkjum hér að góðu einu, vildi ég biðja ráðherrann að reifa lauslega þau helstu úrræði og þær helstu leiðir sem til greina koma ef þetta frestast enn um langa hríð.