Skipulagslög

Mánudaginn 08. mars 2010, kl. 16:54:19 (0)


138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[16:54]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla til að byrja með rétt eins og aðrir þingmenn að óska konum og körlum til hamingju með 100 ára afmæli baráttudags kvenna 8. mars og mæli hér fyrir frumvarpi til skipulagslaga — í tilefni af því.

Skipulagsmál eru mjög þýðingarmikill málaflokkur umhverfismála og hefur umfjöllun um skipulagsmál haft mikla þýðingu þegar horft er til almennrar stefnumótunar í umhverfismálum. Ástæða þess er sú að þegar teknar eru ákvarðanir af stjórnvöldum um skipulag eru m.a. teknar ákvarðanir um framtíðarnotkun lands, ráðstöfun þess, hvernig byggð og landnotkun eigi að þróast til langs tíma, þ.e. hvernig umhverfi íbúanna eigi að vera. Áhrif skipulags á þróun umhverfisins eru í æ ríkari mæli skoðuð samhliða mótun skipulags og þannig verður skipulagsgerð stöðugt mikilvægara tæki til umhverfisverndar og til að treysta sjálfbæra þróun í sessi.

Þar sem skipulag er í eðli sínu langtímastefnumörkun hentar það einnig mjög vel sem tæki til umhverfisverndar. Það er grundvallaratriði að vandað sé til verka við gerð skipulags og leitað eftir sjónarmiðum þeirra sem skipulagið snertir. Ekki síst er mikilvægt að skipulagsyfirvöld taki ákvarðanir sem eru í sem mestri sátt við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Við ákvörðun um skipulag þarf því oft að horfa til ólíkra sjónarmiða og mikilvægt er að þau séu skoðuð gaumgæfilega og fundinn sé farvegur sátta. Skipulagsmál eru í eðli sínu samvinnuverkefni sem felur m.a. í sér samtal stjórnvalda, íbúa og annarra hagsmunaaðila um það í hvernig umhverfi við viljum lifa.

Í frumvarpi þessu er að finna ýmis nýmæli og breytingar á skipulagsþætti gildandi skipulags- og byggingarlaga. Áhersla er hér lögð á aukna kynningu og aukið samráð við gerð skipulagsáætlana, bæði gagnvart almenningi og opinberum aðilum. Þannig er aukin aðkoma almennings og samráðsaðila við gerð skipulags. Með því er ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að þessir aðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri þannig að sveitarstjórnir geti tekið upplýsta ákvörðun um afgreiðslu skipulagsáætlana. Þetta kemur m.a. fram í markmiðsákvæði frumvarpsins þar sem kveðið er á um að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana. Þá er mælt fyrir um svokallaða lýsingu skipulagsverkefnis þar sem gert er ráð fyrir að vinna við gerð skipulags hefjist á að gerð sé grein fyrir áherslum við gerð viðkomandi skipulags, forsendum þess, fyrirliggjandi stefnu og hvernig samráði og kynningu verði háttað gagnvart íbúum og hagsmunaaðilum. Með því er lögð áhersla á að vinna við gerð skipulags sé unnin á gagnsæjan hátt allt frá upphafi.

Í gildandi lögum er ekki fyrir hendi skýr farvegur fyrir ríkisvaldið til að setja fram samræmda stefnumörkun í skipulagsmálum sem varðar landnotkun. Ein af meginbreytingum sem frumvarp þetta mælir fyrir um er að gert er ráð fyrir að ríkisvaldið leggi fram slíka stefnumörkun í formi landsskipulagsstefnu. Megintilgangur landsskipulagsstefnu er að setja fram stefnu um landnotkun sem byggir á stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum sem annars vegar felst í að útfæra stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun og aðra stefnumörkun sem ríkisvaldið kann að hafa mótað og sett fram, svo sem stefnu í loftslagsmálum.

Hins vegar felst í gerð og efni landsskipulagsstefnu að taka saman fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum, svo sem á sviði byggðamála, ferðaþjónustu, náttúruverndar, orkunýtingar, samgangna o.s.frv., samþætta hana og útfæra þá stefnumörkun með tilliti til skipulags landnotkunar. Í því getur falist að ná sameiginlegum niðurstöðum ef fyrirliggjandi áætlanir í einstökum málaflokkum stangast á, sem og að setja fram samþætta stefnu sem varðar skipulagsgerð sveitarfélaga þannig að sveitarfélögin hafi aðgang að stefnu ríkisvaldsins sem varðar skipulagsgerð.

Landsskipulagsstefnu er þannig ætlað að taka saman á einn stað og eftir atvikum samræma stefnu ríkisvaldsins í ólíkum málaflokkum sem snerta landnotkun og ráðstöfun lands. Þá er gert ráð fyrir að í landsskipulagsstefnu sé gerð grein fyrir stöðu og þróun skipulagsmála í landinu til upplýsingar fyrir almenning og stjórnvöld og til leiðbeiningar fyrir sveitarstjórnir í skipulagsgerð.

Rétt eins og í gildandi skipulags- og byggingarlögum verður höfuðábyrgð á skipulagsgerð áfram hjá sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að landsskipulagsstefna verði lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar eftir víðtækt samráðsferli í stjórnkerfinu, samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og einstök sveitarfélög eftir því sem við á.

Dæmi um landsskipulagsstefnu sem felur í sér stefnumótun um landnotkun er grunngerð á landsvísu eins og samgöngukerfi, orkuöflunar- og dreifikerfi, náttúruvernd, útivist og önnur landnotkun á svæðum eins og miðhálendi Íslands. Þar yrði horft til þess hvernig framtíðarnotkun lands eigi að vera á því svæði, svo sem með tilliti til orkunýtingar, náttúruverndar, umferðar o.s.frv. Landsskipulagsstefna um miðhálendi Íslands getur þannig varðað stefnumörkun ríkisvaldsins um frekari uppbyggingu á því svæði, eins og orkunýtingu og vegaframkvæmdir. Landsskipulagsstefna getur einnig varðað stefnumörkun um verndun svæða á miðhálendi Íslands sem samkomulag væri um að ekki eigi að nýta til framkvæmda, heldur halda sem ósnortnustum til upplifunar og útivistar. Gert er ráð fyrir að fyrsta landsskipulagsstefnan verði lögð fram á Alþingi árið 2012.

Lagt er til að samvinnunefnd miðhálendisins sem fer með skipulagsmál á miðhálendi Íslands verði lögð niður. Við gildistöku frumvarpsins, þ.e. 1. janúar 2011, eiga öll sveitarfélög í landinu að hafa lokið við gerð aðalskipulags í sínu sveitarfélagi, en í ákvæði til bráðabirgða í gildandi lögum er kveðið á um að að liðnum 10 árum frá gildistöku þeirra laga, þ.e. 1. janúar 2008, skuli öll sveitarfélög hafa gert aðalskipulag. Þannig verður við gildistöku þessa frumvarps, verði það að lögum, lokið því mikilvæga hlutverki samvinnunefndar miðhálendisins að samræma aðalskipulag sem liggur að miðhálendinu við svæðisskipulag miðhálendisins. Lagt er til að í landsskipulagsstefnu sé ávallt uppfærð stefna um skipulagsmál á miðhálendi Íslands.

Með vísan til framangreindra breytinga á skipan mála er ekki talin þörf á að samvinnunefnd miðhálendis haldi áfram störfum þar sem lagt er til að verkefni hennar verði færð til viðkomandi sveitarfélaga og ríkisvaldsins.

Áhersla er lögð á að skipulagsgerð sé skilvirk og jafnframt sveigjanleg, svo sem varðandi breytingar á skipulagsáætlunum og afgreiðslu þeirra. Jafnframt er lögð áhersla á að skýra hlutverk skipulagsáætlana á mismunandi skipulagsstigum og samspil þeirra og að komið sé í veg fyrir skörun einstakra skipulagsáætlana til að tryggja skilvirkni við gerð skipulags. Lagt er þannig til að skýr greinarmunur sé á svæðisskipulagi annars vegar og aðalskipulagi hins vegar. Í svæðisskipulagi skal þannig einungis fjalla um sameiginleg hagsmunamál þeirra sveitarfélaga sem standa að því en ekki almennt um staðbundnar ákvarðanir um landnotkun. Ekki er gerð krafa um að svæðisskipulagið taki til alls lands viðkomandi sveitarfélaga, heldur getur svæðisskipulagið tekið til heilla landshluta eða ákveðinna þátta landnotkunar sem nær til fleiri en eins sveitarfélags. Jafnframt er lögð áhersla á að tryggja betur að skipulagsákvarðanir eigi þátt í að stuðla að sjálfbærri þróun, um leið og þær séu betur færar um að stuðla að öðrum markmiðum frumvarpsins.

Í frumvarpinu er sérstaklega kveðið á um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og er lagt til að starfrækja skuli svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins sem fer með breytingar og framfylgd þess skipulags. Í frumvarpinu er tiltekið að deiliskipulag skuli m.a. taka til útlits mannvirkja og forms eftir því sem við á. Þar sem hér er um stefnumótandi þætti að ræða er lagt til að kveðið sé á um þá þætti í deiliskipulagi. Í markmiðsákvæði frumvarpsins er þetta undirstrikað þar sem segir að tryggja skuli faglegan undirbúning mannvirkjagerðar við gerð skipulagsáætlana varðandi útlit og form bygginga.

Í ljósi framkvæmdarinnar er talið nauðsynlegt að fyrir hendi sé úrræði til að tryggja eftirfylgni og stöðvun framkvæmda í þeim tilvikum þar sem framkvæmdir eru ekki í samræmi við lög. Skipulagsstofnun er fengið slíkt hlutverk í frumvarpi þessu, en stofnunin hefur að ákveðnu leyti gegnt eftirlitshlutverki með framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum, með því að vera í samskiptum við einstaka sveitarstjórnir og benda á atriði sem lagfæra þarf, oft eftir ábendingar sem stofnuninni hafa borist. Hér er lagt til að stofnunin geti fylgt slíkum ábendingum eftir ef á þarf að halda.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.