Skipulagslög

Mánudaginn 08. mars 2010, kl. 17:03:32 (0)


138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:03]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kemur hér að, 10. gr. er kannski sá núningsflötur sem mest áhrif hefur haft á úrvinnslu og framgang málsins hingað til. Af þeim sökum og vegna sögu minnar í málinu, þ.e. að ég var sveitarstjórnarmaður sjálf og mjög skeptísk á landsskipulagsstefnuna í fyrri frumvörpum, lagði ég mikla áherslu á að þetta mál yrði leitt til lykta í sáttafarvegi. Af þeim sökum hefur verið unnið með fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einnig aðilum frá Reykjavíkurborg til að tryggja framgang málsins, a.m.k. að því er varðar samráð við þessa aðila, enda kemur fram í 10. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög skulu taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana eða breytinga á þeim og, eftir því sem við á, samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar.“

Hér er ekki gengið eins langt og áður hefur verið gert. Við teljum að þetta snúist fyrst og fremst um samstarfs- og samráðsgrundvöll þeirra tveggja hliða hins opinbera sem um ræðir, þ.e. annars vegar ríkisvaldsins og hins vegar sveitarfélaganna, og að þetta sé farsælt skref í áttina að sameiginlegum skilningi á þeim verðmætum sem ráðstöfun lands er.