Skipulagslög

Mánudaginn 08. mars 2010, kl. 17:10:01 (0)


138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekkert vandamál fyrir mig að hafa sagt nei við náttúruverndaráætlun. Ég stend bara stolt við þau verk mín þar sem mér ofbauð algjörlega það verklag sem umhverfisnefnd, undir forustu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, viðhafði í því máli. Þrátt fyrir að náttúruverndaráætlun sé í eðli sínu atriði sem allir eiga að geta verið sammála um verða ríkisstjórnin og þeir stjórnarliðar sem stýra málum innan húss í þinginu á vegum þeirrar ríkisstjórnar að sýna málum þann sóma að þau fái hér þinglega meðferð en þeim sé ekki skóflað í gegnum þingið á einhverjum handahlaupum án þess að hagsmunaaðilar séu hreinlega spurðir og fái tækifæri til að koma að athugasemdum. Það eru þau vinnubrögð sem ég fordæmdi í því máli.

Frú forseti. Ég vil koma því aftur að hér að í ljósi sögunnar tel ég gríðarlega mikilvægt að skýrir tímafrestir verði settir inn í þetta frumvarp varðandi staðfestingu umhverfisráðherra. Það er skýrara og það er einfaldlega ótækt að ekki sé hægt að svara því þegar spurt er hversu langan tíma staðfestingin komi til með að taka, að það sé ekkert viðmið, þetta sé einfaldlega einhvers konar svarthol sem bíði og enginn viti neitt. Ráðherra verst með því að það sé enginn tímafrestur en ég held að það sé augljóst og að allir hljóti að geta verið sammála um að það sé í góðu lagi að setja inn skýra tímafresti. Það er öllum í hag að allir íbúar þessa lands og sveitarfélögin geti gengið að því vísu að einhverjar reglur gildi um það hvernig þessi mál eru tækluð og tekin fyrir í umhverfisráðuneytinu. Ég held að það sé augljóst að allir, sama hvar í flokki þeir eru, hljóti að geta verið sammála um þetta atriði. Ég vonast til að þetta verði lagað í nefndinni.