Skipulagslög

Mánudaginn 08. mars 2010, kl. 17:39:29 (0)


138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:39]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna því að frumvarp til skipulagslaga skuli aftur vera komið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Ég tel ástæðu til að fara aðeins yfir forsögu málsins við 1. umr. máls, sem er eins og þingmenn vita, umræða til kynningar þar sem menn koma helstu sjónarmiðum á framfæri. En síðan eru málin brotin til mergjar í nefndinni og breytingartillögur væntanlega afgreiddar við 2. umr. um frumvarpið.

Eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins er hér stefnt að aukinni kynningu og samráði við almenning um skipulagsgerð. Nýmæli eins og landsskipulagsstefna, sem er líka samræmingaraðgerð, er hér inni. Hæstv. ráðherra talaði um skilvirkni og sveigjanleika. Mér finnst mikilvægt að hafa það í huga að skilvirknin og sveigjanleikinn þurfa að vera gagnvart fólkinu í landinu. Þetta er ekki frumvarp fyrir sveitarfélögin, þetta er frumvarp fyrir fólkið í landinu eins og önnur slík þó að skipulagslög séu síðan tæki sveitarfélaga og væntanlega ríkis til að stuðla að góðu og sjálfbæru skipulagi til framtíðar. Síðan er hér margt fleira ítrekað eins og með svæðisskipulög og annað. Ég kem nánar að því síðar.

Nú eru nú þeir reyndar farnir úr salnum þeir tveir hv. þingmenn sem haft hafa sig hvað mest í frammi — og er reyndar hvorugur í hv. umhverfisnefnd. Kannski koma þau aftur en þau eru væntanlega að hlusta einhvers staðar annars staðar, frú forseti. Hvað varðar umfjöllun um frumvarpið vil ég að það komi skýrt fram að bálkur af þessari stærð, þegar tekin eru saman frumvarp til skipulagslaga, frumvarp til mannvirkjalaga og svo brunavarnalögin, frumvarpið um að taka þau til baka — það verður ekki hlaupið í gegnum þessa vinnu á handahlaupum enda stendur það ekki til. Hér sýnist mér vera 146 lagagreinar samtals á ferðinni, plús mýmörg ákvæði til bráðabirgða. Það þarf ekki bara að rýna í hverja einustu lagagrein heldur að lesa þær síðan saman og reyna að skilja nákvæmlega hvernig þetta tæki, skipulagstækið, eigi að virka til hagsældar fyrir okkur öll.

Skipulagsferlið er kannski eins og önnur mannanna verk, og sama má segja um þingvinnuna, ferli stöðugra úrbóta. Að sjálfsögðu munum við leitast við að skila frá Alþingi, í sem mestri sátt vonandi, nýjum og betri skipulagslögum eins og efni standa til, enda sé ég ekki betur en hér sé á ferðinni afar gott og vel unnið frumvarp.

Svo það sé á hreinu er það með öðrum hætti þegar hér eru tekin fyrir frumvörp sem breyta lögum í landinu en þegar fjallað er um þingsályktunartillögur um viljayfirlýsingar á hinu háa Alþingi, án þess að ég ætli að fara að draga úr gildi þeirra, er hreinlega ekki um sambærileg mál að ræða. Hér er um grundvallarlöggjöf á sviði umhverfismála og umhverfisverndar að ræða og um hana verður fjallað í umhverfisnefnd eins og þarf, en það verður heldur ekki slugsað þar. Það verður fjallað um hana eins og þarf. Til þess höfum við næstu vikur og mánuði og vonandi sumarið líka af því að ég vænti þess að enginn ætli í sumarfrí í sumar.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði hér áðan að ekki væri nægilegt tillit tekið til dreifbýlissjónarmiða. Það má vel vera og við munum íhuga það vandlega í umhverfisnefnd en það er rétt, sem hæstv. umhverfisráðherra segir, að Samband íslenskra sveitarfélaga segist vera hagsmunagæsluaðili allra sveitarfélaga á Íslandi. Eins og við vitum samt öll eru sveitarfélögin ansi misjöfn að stærð og gerð og við hljótum að skoða málin með tilliti til þess. Þingmaðurinn gerði það einnig að umtalsefni að ef til vill hefði þurft að vinna frumvarpið betur.

Nú er það svo, og það kemur auðvitað skýrt fram í greinargerð frumvarpsins og í athugasemdum við lagafrumvarpið, að breytingar á skipulagslögum hafa verið í undirbúningi samfellt í átta ár. Þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, úr Framsóknarflokknum, skipaði nefndina sem vann fyrstu gerð þessa frumvarps. Hún vann á árunum 2002–2006. Hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Anna Þórðardóttir, sendi afrakstur nefndarinnar út til umsagnar sumarið 2006, ef ég man rétt. Hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, þingmaður Framsóknarflokksins, Jónína Bjartmarz, fór fram með frumvarpið í febrúar 2007 og sú sem hér stendur gerði það ári síðar, í febrúar 2008. Auðvitað hafa frumvörpin og þessi vinna tekið breytingum á þessum langa ferli og margt breyst til batnaðar, mundi ég ætla, tekið er tillit til umsagna og annars slíks. Það er hins vegar ekkert leyndarmál að þegar þetta frumvarp var síðast lagt fram strandaði það á andstöðu sveitarfélaganna við landsskipulagsstefnuna eða landsskipulagsáætlunina. Nú geri ég mér góðar vonir um að hægt verði að vinna þetta frumvarp og ljúka þessari afar mikilvægu vinnu og umbótum á skipulagsmálum í landinu á næstu mánuðum á þessu missiri.

Minnst var á Fasteignamat ríkisins og jarðaskrá og annað slíkt. Ég hygg, og kannski kemur það betur til umfjöllunar hér þegar við fjöllum um frumvarp til mannvirkjalaga, að það sé eitt af því sem nefndin þurfi að skoða og taka afstöðu til. Það er alveg rétt að upplýsingar sem þessar liggja of víða í samfélaginu. Það er of erfitt, bæði fyrir venjulegt fólk, fyrir sveitarstjórnir og aðra sem þurfa að nýta þessar upplýsingar, að nálgast þær, m.a. vegna þess að þær eru dreifðar. Eitt af því sem stuðlar að bættri þjónustu við almenning og íbúana í sveitarfélögunum er að hafa þessar upplýsingar miðlægar í einhvers konar gagnagrunni. Mætti vel hugsa sér að Fasteignamatið væri hluti af þeim gagnagrunni og ekki væri verra ef allir þessir gagnagrunnar væru undir stjórn umhverfisráðuneytisins, svo að ég segi nú alveg eins og er, frú forseti.

Það þarf að samræma þessar upplýsingar og koma þeim betur til skila. Við munum fara yfir það í umhverfisnefnd eins og annað sem hér liggur fyrir. Ég ætla að öðru leyti ekki að hafa lengra mál um efni frumvarpsins. Það verður farið ítarlega yfir það í nefndinni og að sjálfsögðu fjallað þar um hverja grein.

Ég vil ljúka ræðu minni með því að minna þingheim á að land er takmörkuð auðlind. Það er þess vegna sem það er svo nauðsynlegt að þetta frumvarp, þetta tæki, sé gott og það sé samræmt og það þjóni því markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun hér á landi og þar með umhverfisvernd. Höfum það í huga að landið er takmörkuð auðlind. Okkur ber að umgangast það sem slíkt.